Stjórn Rauða krossins rifjaði upp skyndihjálparkunnáttu

7. maí 2007

Á dögunum sótti stjórn Rauða krossins upprifjunarnámskeið í skyndihjálp en útbreiðsla skyndihjálparþekkingar hefur verið eitt af megin verkefnum Rauða kross Íslands frá upphafi. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru þau Ólafur Ingi Grettisson, Snezana Sabo og Vaida Kariwauskaite.

„Það er mjög mikilvægt að allir sjálfboðaliðar Rauða krossins hafi grundvallarþekkingu í skyndihjálp. Margir sjálfboðaliðar, sérstaklega þeir sem sinna neyðarvörnum hafa sótt skyndihjálparnámskeið en við viljum leggja áherslu á að sjálfboðaliðar viðhaldi þekkingu sinni og sæki upprifjunarnámskeið á tveggja ára fresti. Okkur þótti eðlilegt að byrja á okkur sjálfum og ákváðum því að sækja námskeið saman," segir Ómar H. Kristmundsson formaður Rauða kross Íslands.

Á námskeiðinu var farið í helstu grunnatriði skyndihjálpar sem allir þurf að kunna til að geta hjálpað slösuðum eða sjúkum þar til aðstoð fagfólks berst. Farið var í atriði eins og aðgerðir á slysavettvangi, hvernig tryggja á öryggi, skoðun og mat á veikum og slösuðum, endurlífgun, losun aðskotahlutar úr öndunarvegi, hvernig meðhöndla má áverka eins og blæðingar, höfuðhögg, mænuskaða brunasár, beinbrot og liðáverka og alvarleg veikindi eins og brjóstverk, bráðaofnæmi, flogaveiki, sykursýki, öndunar­erfiðleikar og heilablóðfall.

Námskeiðið tókst vel í alla staði og ríkti almenn ánægja meðal þátttakenda og leiðbeinenda með hvernig til tókst.