Blástur eða ekki blástur í endurlífgun

21. maí 2007

Umfjöllun um niðurstöður nýrrar japanskrar rannsóknar
 
Nýlega voru birtar niðurstöður japanskrar rannsóknar á árangri endurlífgunartilrauna utan spítala í tímaritinu Lancet 2007; 369:920-26. Fjallað var um niðurstöðurnar í Morgunblaðinu og á www.mbl.is
 og af þeirri umfjöllun mátti ráða að leiðbeiningum til almennings hefði verið breytt í kjölfar birtingar rannsóknarinnar. 
 
Skyndihjálparráð Íslands vill árétta að leiðbeiningum til almennings varðandi þetta atriði skyndihjálpar hefur ekki verið breytt vegna útgáfu þessarar einu rannsóknar.
 
Síðustu alþjóðlegu leiðbeiningarnar til almennings voru gefnar út árið 2005, þýdd og staðfærð útgáfa þeirra er aðgengileg á vef Landlæknis, www.landlaeknir.is. Slíkar leiðbeiningar byggja á skipulagðri yfirferð hópa vísindamanna á þúsundum rannsókna en aldrei á einstökum rannsóknum.
 
Í japönsku rannsókninni sem birt var í Lancet reyndist árangur af endurlífgunartilraunum sem framkvæmdar eru utan spítala, þar sem hjartahnoði er eingöngu beitt, gefa betri árangur en hefðbundin endurlífgun þar sem bæði er hnoðað og blásið. Um 6% þeirra sem voru einungis hjartahnoðaðir lifðu áfallið af, 4% þeirra sem fengu hefðbundna endurlífgun og einungis 2% þeirra sem fengu enga aðstoð. Því var dregin sú ályktun að rétt sé að hætta öndunaraðstoð og hnoða eingöngu.
 
Í núgildandi leiðbeiningum var dregið verulega úr vægi öndunaraðstoðar og meiri áhersla lögð á hjartahnoð.  Ofangreind rannsókn var gerð á árunum 2002-2003 áður en nýjar leiðbeiningar um endurlífgun tóku gildi. Einnig má benda á að árangur endurlífgunartilrauna hér á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri hefur reynst mun betri en í japönsku rannsókninni og lifun verið um 20%. Því er óvist að niðurstöðurnar eigi við með sama hætti hér á landi.
 
Vel er þekkt að þó að hjartahnoð eitt og sér skipti mestu máli fyrstu mínúturnar eftir hjartastopp er blástur engu að síður nauðsynlegur þegar lengri tími er liðinn frá hjartastoppinu og ef hjartastoppið er tilkomið vegna öndunarfærasjúkdóms, drukknunar, slysa eða ef um börn er að ræða. Á skyndihjálparnámskeiðum er nauðsynlegt að þjálfa fólk einnig til að bregðast við slíkum tilvikum en ekki eingöngu hjartastoppum fullorðinna líkt og japanska rannsóknin fjallaði um.
 
Að mati Skyndihjálparráðs er ekki rétt að breyta ráðleggingum almennings um endurlífgun vegna þessarar einu rannsóknar. 
 
Í Skyndihjálparráði sitja fulltrúar frá Félagi leiðbeinenda í skyndihjálp, heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, menntamálaráðuneytinu, landssambandi slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, landlæknisembættinu, Rauða krossi Íslands og Slysavarnafélaginu Landsbjörgu.

Þeim sem vilja kynna sér aðferðir endurlífgunar nánar er bent á upplýsingar á heimasíðu Rauða kross Íslands www.redcross.is