Íslenskur skyndihjálparhópur í Mónakó

6. jún. 2007

Fjögurra manna hópur sjálfboðaliða frá Reykjavíkurdeild Rauða krossins er nú staddur í Mónakó til að sinna sjúkragæslu á Smáþjóðaleikunum, ásamt sjálfboðaliðum frá mónakóska Rauða krossinum.
 
Skyndihjálparhópurinn hefur starfað óslitið síðan 1989. Helstu verkefni hans eru sjúkragæsla á mannamótum, fræðsla, þátttaka í neyðarvörnum Rauða krossins, útbreiðsla skyndihjálpar og fjáröflun. Hópurinn tekur til dæmis á hverju ári þátt í 112 deginum og Menningarnótt Reykjavíkurborgar. Auk fjölbreyttra verkefna innanlands hefur hann nokkrum sinnum tekið þátt í Evrópukeppni Rauða krossins í skyndihjálp erlendis.
 
Þátttaka í hópnum er opin öllum sjálfboðaliðum frá 18 ára aldri.
 
Skyndihjálparhópur Reykjavíkurdeildarinnar var lengi vel sá eini innan félagsins en á síðustu misserum hafa bæst við hópar annars staðar á landinu. Deildir á Norðurlandi reka til að mynda sameiginlegan skyndihjálparhóp og svipaðir konar hópar hafa nýverið tekið til starfa á  Ísafirði og Fljótsdalshéraði.