Fyrirlestur og námskeið um stuðning við börn og unglinga í kjölfar áfalla

21. ágú. 2007

Föstudaginn 14. september mun dr. Barbara Juen halda fyrirlestur um Aðstoð við börn og unglinga í kjölfar áfalla (Crisis intervention with children and adolescents). Fyrirlesturinn fer fram í Sjálfboðamiðstöð Hafnarfjarðardeildar Rauða krossins og stendur frá kl. 13 – 16. Fagfólki sem vinnur með börn og unglinga er boðið að taka þátt. Nánari upplýsingar og þátttökuskráning hér.

Dr. Barbara  mun einnig halda námskeið dagana 12. og 13. september undir heitinu Aðstoð í kjölfar áfalla (Crisis Intervention after critical/traumatic events). Námskeiðið er ætlað meðlimum áfallahjálparteymis Rauða krossins en einnig hefur áfallateymi Landsspítala háskóla sjúkrahúss auk annarra teyma um landið verið boðið að senda þátttakendur.

Á námskeiðinu verður sérstaklega beint sjónum að þörfum barna og unglinga sem lent hafa í alvarlegum áföllum og stuðningi við þau. Rætt verður um íhlutunaraðferðir út frá mismunandi atburðum og tekin dæmi. Einnig verður fjallað um mismunandi tegundir og aðferðir sálræns stuðnings og gerð grein fyrir því kerfi sem er við líði í Austurríki.

Dr. Barbara Juen er prófessor í sálarfræði við háskólann í Innsbruck og yfirmaður sálræns stuðnings hjá austurríska Rauða krossinum. Hún hefur fengist við meðferð barna og unglinga ásamt því að sinna rannsóknum, halda námskeið og verið afkastamikil við skriftir. Hún hefur bæði stjórnað áfallahjálparteyminu í Innsbruck sem og sinnt útköllum fyrir það.