12 prósent Víkurbúa sóttu skyndihjálparnámskeið

22. jan. 2008

Helgin hjá íbúum Víkur fór í að bæta skyndihjálparkunnáttuna. Rauða kross deildin í Vík stóð fyrir þremur námskeiðum. Starfsfólk sundlauganna í Vík og á Kirkjubæjarklaustri sótti 24 klukkustunda námskeið í Skyndihjálp og björgun. Síðan var haldið 16 kennslustunda námskeiði í almennri skyndihjálp fyrir aðra íbúa Víkur og að lokum var námskeið fyrir starfsfólk Vegagerðarinnar.

Þátttakendur voru 37 sem telst vera 12 % Víkurbúa. Yngsti þátttakandinn var 14 ára. Kennt var eftir nýrri bók Skyndihjálp og endurlífgun, þú getur hjálpað þegar á reynir.

„Þátttakendur voru mjög áhugasamir og mynduðust áhugaverðar umræður,” segir Vigdís Björk Agnarsdóttir leiðbeinandi. „Hver stund var nýtt til námskeiðahalds en ég naut þess að vera með þessu skemmtilega fólki og gestristni Rauða kross deildarinnar í Vík.