Skyndihjálp á 112-daginn

Kristján Sturluson framkvæmdastjóra Rauða kross Íslands

9. feb. 2008

Það hefur sýnt sig í gegnum tíðina að þekking í skyndihjálp og rétt viðbrögð strax geta bjargað mannslífum og komið í veg fyrir alvarlegar afleiðingar slysa eða veikinda. Eftir að hafa komið að slysum veit ég af eigin reynslu hversu miklu máli skiptir að hafa lært skyndihjálp. Þó að fólk hafi ekki verið alvarlega slasað í þeim tilvikum sem ég hef kynnst er það styrkur að vita að hægt væri að gera gagn ef á þyrfti að halda. Það má líka ekki vanmeta mikilvægi þess að gæta að þeim sem lent hefur í slysi þar til sjúkraflutningamenn eru komnir á staðinn. 

Rauði krossinn hefur í áratugi unnið að útreiðslu skyndihjálpar með því að halda námskeið og bjóða upp á vandað fræðsluefni í skyndihjálp í samræmi við nýjustu kröfur.
Í tilefni af 112-deginum sem haldinn verður mánudaginn 11. febrúar næstkomandi, á vegum viðbragðsaðila í björgun og almannavörnum um allt land, mun Rauði krossinn vekja sérstaka athygli á mikilvægi skyndihjálpar.

Skyndihjálparveggspjald gefið öllum skólum í landinu
Í samvinnu við N1 sem er styrktaraðili Rauða krossins í skyndihjálp mun félagið gefa öllum leikskólum, grunnskólum, framhaldsskólum og háskólum í landinu skyndihjálparveggspjaldið Getur þú hjálpað, þegar á reynir? Margar deildir félagsins heimsækja skólana í sinni heimabyggð af þessu tilefni.

Á veggspjaldinu eru upplýsingar um hvernig bregðast má við í neyð. Framsetningin er bæði einföld og skýr svo allir geta lært eitthvað af því eða rifjað upp helstu aðferðir skyndihjálpar. Dæmin sanna að jafnvel börn geta bjargað mannslífum með því að þekkja til grunnþátta í skyndihjálp.

Veggspjaldið var fyrst gefið skólum árið 2005 en hefur nú verið uppfært samkvæmt nýjum alþjóðlegum leiðbeiningum um skyndihjálp og endurlífgun.

Skyndihjálparmaður ársins 2007 útnefndur
Á sjálfan 112-daginn verður skyndihjálparmaður ársins 2007 útnefndur. Síðustu árin hafa einnig fleiri aðilar, auk skyndihjálparmanns ársins, hlotið sérstaka viðurkenningu fyrir björgunarafrek og munu deildir Rauða krossins víða um land afhenda viðurkenningarnar ásamt því að kynna skyndihjálp á fjölförnum stöðum.

Að lokum vil ég benda á að margar deildir Rauða krossins bjóða reglulega upp á námskeið í skyndihjálp. Ég vil hvetja þig til að hafa samband við Rauða kross deildina á þínu heimasvæði og skrá þig á næsta skyndihjálparnámskeið.

Fyrirtæki eða stofnanir sem vilja nálgast veggspjald í skyndihjálp, hvort sem er á íslensku, ensku eða pólsku, geta haft samband við Rauða krossinn í síma 570400 eða sent póst á afgreidsla@redcross.is.