Allir skólar í landinu fá nýtt skyndihjálparveggspjald

8. feb. 2008

Rauði krossinn, í samstarfi við N1, gefur öllum leik-, grunn-, framhalds- og háskólum landsins skyndihjálparveggspjaldið Getur þú hjálpað, þegar á reynir? Þetta er gert í tilefni af 112-deginum sem haldinn verður á vegum viðbragðsaðila í björgun og almannavörnum um allt land mánudaginn 11. febrúar.

Fjölmargar deildir félagsins um land allt heimsækja skólana í sinni heimabyggð af þessu tilefni, afhenda veggspjöldin og vekja sérstaka athygli á mikilvægi þess að allir kunni skyndihjálp, jafnt starfsfólk sem nemendur.

Á veggspjaldinu eru upplýsingar um hvernig bregðast má við í neyð. Framsetningin er bæði einföld og skýr svo allir geta lært eitthvað af því eða rifjað upp helstu aðferðir skyndihjálpar. Veggspjaldið var fyrst gefið skólum árið 2005 en hefur nú verið uppfært samkvæmt nýjum alþjóðlegum leiðbeiningum um skyndihjálp og endurlífgun.

Börn hafa bjargað mannslífum
Hjá íslenskum börnum á aldrinum 5-14 ára eru slys í skólum nokkuð algeng og er áætlaður fjöldi slysa um 2.500-3.200 á ári. Skyndihjálparkunnátta þeirra sem gæta barnanna í skólunum getur því augljóslega reynst dýrmæt. Mörg dæmi eru um að jafnvel börn hafi bjargað mannslífum með því að þekkja til grunnþátta í skyndihjálp og oftar en ekki hafa þau lært skyndihjálp í grunn- eða framhaldskóla.

Rauði krossinn hefur í áratugi unnið að útreiðslu skyndihjálpar með því að halda námskeið fyrir ýmsa hópa, þar á meðal starfsmenn leik- og grunnskóla, og bjóða upp á vandað fræðsluefni í skyndihjálp í samræmi við nýjustu kröfur.  N1 hefur styrkt skyndihjálparverkefni Rauða krossins síðastliðin þrjú ár.