Sálrænn stuðningur eftir slys skiptir máli

6. mar. 2008

Fræðslufyrirlestur um skyndihjálp og sálrænan stuðning var haldinn á vegum Rauða krossins í samvinnu við foreldrafélag Grunnskólans á Ísafirði í gær.

Auk skyndihjálparinnar sem veitt er þegar slys verða fékk fólk einnig fræðslu um sálrænan stuðning sem skiptir miklu máli varðandi eftirköstin. Með sálrænum stuðningu er oft hægt að draga úr eða koma í veg fyrir alvarlegar afleiðingar áfalla.

Því fyrr sem einstaklingur fær aðhlynningu þegar hann verður fyrir áfalli því líklegra er að hægt sé að draga úr og milda eftirköst sem fylgja oft í kjölfarið. Um er að ræða fyrstu viðbrögð áður en fagaðili kemur að. Oft eru það vinir, fjölskylda og vinnufélagar sem eru nærstaddir til að veita þessa fyrstu aðhlynningu.

Til þess að átta okkur á hvernig öðrum kann að líða þurfum við að hafa einhverja hugmynd um tillfinningaviðbrögð okkar sjálfra og hegðun. Með því að skoða okkur sjálf verðum við betri stuðningur við aðra.