Deildir kynntu skyndihjálp á 112 daginn

13. feb. 2008

Margar deildir Rauða krossins tóku þátt í 112-deginum, sem fram fór síðast liðinn mánudag, með einum eða öðrum hætti. Flestar af deildunum sem tóku þátt heimsóttu skólana á sínu heimasvæði og afhentu þeim skyndihjálparveggspjaldið Getur þú hjálpað þegar á reynir?sem Rauði krossinn, í samstarfi við N1, gaf öllum leik,- grunn,- framhalds- og háskólum í landinu. Sumar deildir kynntu skyndihjálp á fjölförnum stöðum og buðu gestum og gangandi að læra skyndihjálp eða endurlífgun. Nokkrar deildir veittu viðurkenningar til einstaklinga fyrir eftirtektarverða færni í skyndihjálp sem varð til þess að mannslífi var bjargað. Skyndihjálparmaður ársins 2007 var svo útnefndur við hátíðlega athöfn í Skógarhlíðinni í Reykjavík. Hér má sjá sýnishorn af því sem fór fram hjá deildum á 112-daginn:

Stór dagur á Akranesi
Mikið var um dýrðir í andyri verslunarhúss Bónuss, Apóteks Vesturlands og Tölvulistans á 112-daginn þegar Rauði krossinn á Akranesi og sjúkraflutningamenn vöktu athygli þeirra sem leið áttu um húsið á neyðarnúmerinu og mikilvægi skyndihjálpar. Uppákoman hófst með stuttri athöfn þegar Skarphéðinn Magnússon, stjórnarmaður Akranesdeildarinnar, veitti Eiríki Kristóferssyni viðurkenningu fyrir skyndihjálparafrek á árinu 2007 en hann brást rétt og vel við í alvarlegu vinnuslysi í Norðuráli fyrir réttu ári síðan. Einnig tóku fulltrúar allra leikskóla og grunnskóla á Akranesi og í Hvalfjarðarsveit og Fjölbrautaskóla Vesturlands á móti skyndihjálparveggspjaldinu. Að athöfn lokinni var boðið upp á blóðþrýstings- og blóðsykurmælingu, vegfarendum bauðst að spreyta sig við endurlífgun, börn fengu að skoða sjúkrabílana og skyndihjálpartöskur voru til sölu.

Grunnskólar heimsóttir í Skagafirði
Neyðaraðilar í Skagafirði, fulltrúi frá lögreglunni, Rauða krossinum og slökkviliðinu tóku höndum saman á 112-deginum og heimsóttu alla grunnskóla í Skagafirði. Þar sögðu þeir frá Neyðarlínunni og mikilvægi hennar. Einnig afhenti Rauði krossinn skyndihjálparveggspjald. Krakkarnir fengu svo að skoða lögreglubílinn og spyrja út í starf neyðaraðila.

Heiðraður fyrir björgunarafrek
Rauða kross deildin í Austur Húnavatnssýslu afhenti Rúnari Þór Njálssyni viðurkenningu fyrir einstakt björgunarafrek. Rúnar bjargaði bekkjarbróður sínum sem var í sykurfalli með því að aka honum fárveikum í hjólastól sínum að söluskála N1 á Blönduósi þar sem kallaður var til læknir. Deildin tók þátt í dagskrá viðbragðsaðila á Blönduósi á 112-deginum með lögreglu, björgunarsveitinni og sjúkraflutningamönnum frá Heilbrigðisstofnun Blönduóss.

Fékk viðurkenningu og ávísun á skyndihjálparnámskeið
Kópavogsdeild Rauða krossins veitti Jens Karli Ísfjörð viðurkenningu fyrir að frækið björgunarafrek á árinu 2007. Jens Karl vann það afrek að koma þýskum eldri hjónum til bjargar þar sem þau sátu föst í bíl sínum í Steinholtsá. Jens Karl, sem er kennari í Ölduselsskóla, var með fulla rútu af nemendum sínum á ferðalagi í Þórsmörk í september síðast liðnum þegar hann kom að hjónunum í ánni en þau sátu þar föst í bifreið sinni vegna mikils vatns og straums í ánni. Jens var með vöðlur með sér eins og hann gerir svo oft á ferðalögum og óð út að bílnum til að koma hjónunum til bjargar. Fullvíst þykir að þau hefðu ekki þolað mikið meiri tíma í ánni. Ásamt viðurkenningunni færði Kópavogsdeildin Jens Karli gjafabréf á skyndihjálparnámskeið sem Jens hyggst nýta sér. Einnig sendi Kópavogsdeild öllum skólum í Kópavogi skyndihjálparveggspjald á 112-daginn.

Rúmlega 330 nemendur í Sunnulækjarskóla fengu kynningu
Fulltrúar Árnesingadeildar, hjúkrunarfræðingur og skyndihjálparleiðbeinandi auk starfsmanns deildarinnar, heimsóttu Sunnulækjarskóla á Selfossi og kynntu neyðarnúmerið 112 og Rauða krossinn fyrir nemendum í öllum bekkjardeildum skólans. Kynningin vakti mikinn áhuga nemenda en í skólanum eru 338 börn í 1.til 7.bekk. Sjúkrabíllinn kom svo í heimsókn og fengu börnin að skoða hann. Kynningin vakti mikinn áhuga nemenda jafnt sem kennara.