Í mörg horn að líta hjá leiðbeinendum í skyndihjálp

22. apr. 2008

Leiðbeinendur í Skyndihjálp og björgun sóttu endurmenntunarnámskeið Rauða krossins í síðustu viku. Fjallað var meðal annars um neyðaráætlanir á sundstöðum og öryggi sundgesta. Námskeiðinu lauk með verklegum æfingum í Sundhöll Reykjavíkur og er óhætt að fullyrða að Sundhöllin var líklega öruggasta laug landsins það kvöldið. Leiðbeinendur á námskeiðinu voru Ólafur Ingi Grettisson og Finnbjörn Finnbjörnsson.

Annað endurmenntunarnámskeið tók við næsta dag fyrir leiðbeinendur í skyndihjálp. Að þessu sinni var megin áherslan lögð á umfjöllun um slysaforvarnir, tíðni, tegund og alvarleika slysa af ýmsu tagi.

Dagbjört Kristinsdóttir frá Slysavarnafélaginu Landsbjörgu leiddi leiðbeinendur í allan sannleikann um slys á börnum og helstu slysagildrur og fór í þeim tilgangi með allan hópinn í göngutúr á leikvöll í miðbæ Hafnafjarðar sem tekinn var út með tilliti til öryggis. Ólafur Ingi Grettisson sjúkraflutningamaður tók fyrir hestaslys án þess þó að fara með hópinn á hestbak. Hafþór Guðmundsson íþróttafræðingur fjallaði um íþóttaslys og þær reglur sem gilda um öryggismál í íþróttahúsum. Elín Jónasdóttir sálfræðingur lét þátttakendur svara áleitnum spurningum út frá dæmisögum um það hvar og hvenær er viðeigandi að bjóða áfallahjálp eða sálrænan stuðning. Að síðustu greindi Einar Þór Hafberg frá nýjustu leiðbeiningum um skyndihjálp eftir drukknun.