Feimnin varð okkur að falli

25. jún. 2008

Þrátt fyrir botnsætið í Face08 evrópskri keppni í skyndihjálp var það gleðin sem stóð uppúr ferðinni hjá skyndihjálparhópi Norðlendinga sem kom snemma á  mánudagsmorguninn til Akureyrar að keppnisferðinni til Liverpool lokinni, eftir 19 tíma ferðalag.
 
„Að sjálfsögðu voru menn ekki sáttir við að enda í neðsta sæti því allir hafa jú keppnisskap og löngun til að vera á toppnum," segir Guðný Björnsdóttir fararstjóri landsliðsins. „Eftir að hafa skoðað stigagjöf dómaranna þar sem við sáum hvar íslenska liðið var helst að tapa stigum varð liðið sáttara við hlutskipti sitt því stigin voru ekki að tapast í umönnun sjúklinganna heldur meira á tæknilegum atriðum." Fyrst og fremst tapaði liðið stigum á því hversu illa það þekkti umgjörð keppninnar en eins og þjálfari liðsins sagði: „Feimnin varð ykkur að falli," segir Guðný.

Serbar hrepptu fyrsta sætið, Írar urðu í öðru sæti og Armenar í því þriðja.

„Þó svo að keppninni hafi seinkað um tæpa tvo tíma var skipulagið til fyrirmyndar, atvinnuleikarar léku þolendur og urðum við vitni af mörgum frábærum leiksýningum," segir Guðný. „Veðrið setti sitt mark á keppnisdaginn en það var rigning, vindur og fremur svalt framan af degi en lagaðist heldur í lokin. Á föstudeginum var hins vegar sól og blíða en þann dag var meira um fræðsluerindi og sýningar á búnaði sem fram fór innan dyra, fyrir utan hluta að setningarathöfninni sjálfri og siglingar sem öllum var boðið í um hafnarsvæði Liverpool."
 
„Efst í huga liðsins er mikil gleði yfir að fá að taka þátt í svona keppni sem reyndi á en var gríðarlega góð æfing og reynsla, sem mun skila sér í samheldnum og góðum hópi skyndihjálparfólks," segir Guðný.