Skyndihjálpahópur á Formúlu 1

24. jún. 2008

Fjórum sjálfboðaliðum skyndihjálparhóps var boðið að taka þátt í sjúkragæslu á Formúlu 1 keppninni á dögunum. Hópurinn var í boði Rauða krossins í Mónakó, en þetta er annað árið í röð sem hópurinn fer þangað til starfa.

Verkefni hópsins voru fjölmörg enda í mörg horn að líta í svona keppni. Eitt af verkefnum hópsins á keppnisdaginn sjálfan var að gæta Alberts prins II við ráslínu keppninnar.

Að keppninni lokinn var sjálfboðaliðunum boðið til Ítalíu að skoða Rauða krossinn í San Remo. Þar var vel tekið á móti þeim að hætti Ítala með mat og drykk. Heppnaðist ferðin vel í alla staði og var hópurinn Reykjavíkurdeildinni til mikils sóma.

Skyndihjálphópurinn hefur starfað óslitið síðan 1989. Helstu verkefni hópsins eru sjúkragæsla á mannamótum, fræðsla, þátttaka í neyðarvörnum Rauða kross Íslands, útbreiðsla skyndihjálpar og fjáröflun. Hópurinn tekur til dæmis á hverju ári þátt í 112 deginum og Menningarnótt Reykjavíkurborgar. Auk fjölbreyttra verkefna innanlands hefur hann nokkrum sinnum tekið þátt í Evrópukeppni Rauða krossins í skyndihjálp.

Þátttaka í hópnum er opin öllum sjálfboðaliðum frá 18 ára aldri. Áhugsamömum er bent á að hafa samband við Ungmennadeild Reykjavíkurdeildar með því að senda tölvupóst á [email protected] eða í gegnum síma 545-0407.

Skyndihjálparhópur Reykjavíkurdeildarinnar var lengi vel sá eini innan félagsins en á síðustu misserum hafa bæst við hópar annars staðar á landinu. Deildir á Norðurlandi reka til að mynda sameiginlegan skyndihjálparhóp og svipaðir hópar hafa nýverið tekið til starfa á  Ísafirði.