Góð þátttaka á námskeiðum á Vesturlandi

6. feb. 2009

Rauða kross deildir á Vesturlandi hafa staðið fyrir fimm námskeiðum í sálrænum stuðningi á síðustu tveimur mánuðum.  Á þessi fimm námskeið mættu samtals 104 manns. Athygli vekur að af þessum fjölda eru milli 80 og 90 manns frá opinberum stofnunum og leik- og grunnskólum á Vesturlandi.

Námskeiðin eru 4 klst. að lengd og er markmið þeirra að þátttakendur kynnist gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum.

Svæðisráð og forráðamenn deilda hafa við skipulagningu námskeiðanna leitað eftir  samstarfi við opinbera aðila og skólastjórnendur á þeim stöðum þar sem þegar hafa verið haldin slík námskeið, og hefur þeim umleitunum undantekningarlaust verið vel tekið eins og tölur um mætingu sýna og eru víða dæmi um að námskeiðin hafi verið og verði felld inn í starfsdaga kennara.

Ástæða er til að þakka þeim skólastjórnendum og forráðamönnum opinberra stofnana sem þegar hefur verið leitað til á Vesturlandi fyrir mikið og gott samstarf við skipulagningu námskeiðanna og gott til þess að vita að hugað sé svo vel að velferð barnanna okkar sem eyða að jafnaði fullum vinnudegi í skóla, og þeim tryggt  eins áhyggjulaust líf og mögulegt er miðað við þær erfiðu aðstæður sem nú ríkja í þjóðfélaginu, hvort sem þau eru heima eða í skólanum.

Námskeiðin eru öllum að kostnaðarlausu og er þeim sem hafa áhuga á að komast á námskeið í sálrænum stuðningi  bent á að leita til sinnar heimadeildar varðandi upplýsingar um næstu námskeið (nánari upplýsingar um deildir er að finna á redcross.is- heimasíður deilda),  en leitast verður við að bjóða upp á þessi námskeið á vegum Rauða kross deilda á Vesturlandi eins og þurfa þykir.