Skyndihjálp kynnt í grunnskólum landsins á 112 daginn

11. feb. 2009

Sjálfboðaliðar í um þrjátíu deildum Rauða krossins víða um land heimsækja grunnskóla í dag í tilefni af 112-deginum sem haldinn er árlega þann 11. febrúar. Viðbragðsaðilar um allt land heimsækja grunnskóla og fræða nemendur um neyðarnúmerið og starfsemi sína.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins kynna skyndihjálp fyrir nemendum og halda á lofti því víðtæka öryggis- og velferðarkerfi sem börn og ungmenni hafa aðgang að í gegnum neyðarnúmerið ef eitthvað bjátar á.

Börnunum er jafnframt bent á að þau geta sjálf gert ýmislegt til að stuðla að eigin öryggi og annarra, meðal annars með þátttöku í starfi sjálfboðaliðasamtaka og þekkingu í slysavörunum, eldvörnum og skyndihjálp. Kennarar geta nálgast stutt skyndihjálparverkefni til að leggja fyrir nemendur.

Dagurinn verður að venju vettvangur fyrir afhendingu verðlauna í Eldvarnagetraun LSS og útnefningu skyndihjálparmanns Rauða krossins. Ennfremur gaf Neyðarlínan út sérblað í tilefni dagsins og er því dreift með Fréttablaðinu.

Samstarfsaðilar dagsins eru Rauði krossinn, Neyðarlínan, Ríkislögreglustjórinn, Brunamálastofnun, slökkvilið, Slysavarnafélagið Landsbjörg, Landhelgisgæslan, Barnaverndarstofa, Landlæknisembættið, Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna og Flugstoðir.