Nemendur í Breiðholtsskóla læra endurlífgun

20. apr. 2009

Starfsmenn Rauða krossins heimsóttu áhugasama nemendur úr 8. og 9. bekk Breiðholtsskóla í sl. viku og kenndu endurlífgun. Nemendurnir lærðu að beita hjartahnoði, blása í einstakling sem farið hefur í hjartastopp og losa aðskotahlut úr öndunarvegi.

Nemendurnir, sem eru í valáfanganum Útivera undir leiðsögn Láru Ingólfsdóttur, leystu verklegar æfingar fimlega og æfðu sig á kennslubrúðum.

Skólafræðsla er hluti af starfi Rauða krossins og Rauða hálfmánans víða um heim. Markmiðið er að kynna hugsjónir og grundvallarmarkmið hreyfingarinnar fyrir ungu fólki á uppvaxtarárunum enda hefur slík kynning uppeldis- og samfélagslegt gildi.

Á skólavef Rauða krossins, redcross.is/skoli, geta kennarar nálgast ýmis konar fræðsluefni og hugmyndir að þemaverkefnum bæði fyrir grunnskóla og framhaldsskóla. Nánari upplýsingar veitir landsskrifstofa Rauða kross Íslands í síma 5704000 eða fraedsla@redcross.is.