Kannt þú að bregðast við í neyð?

Hrund Þórsdóttur blaðamann á Vikunni

30. apr. 2009

Skyndihjálparkunnátta er ómetanleg. Nauðsynlegt er að allar fjölskyldur hugi að þekkingu sinni á því sviði og fari í gegnum einfaldar viðbragðsáætlanir til að nota ef voða ber að höndum. Allir fjölskyldumeðlimir ættu líka að þekkja neyðarnúmerið, 112 ! Hrund Þórsdóttir tók viðtal við Gunnhildi Sveinsdóttur verkefnisstjóra Rauða kross Íslands sem birtist í Vikunni 22. apríl.

 „Skyndihjálp er fyrsta aðstoð sem veitt er slösuðu eða bráðveiku fólki, en kemur ekki í stað viðeigandi læknishjálpar. Hún er bráðabirgðahjálp sem veitt er þar til læknishjálp fæst eða bati án hjálpar læknis er tryggður. Ef rétt er staðið að skyndihjálp getur hún skilið á milli lífs og dauða, skjóts bata og langrar sjúkrahússvistar eða tímabundinnar og langvarandi fötlunar. Skyndihjálp er hins vegar ekki bara til þess að aðstoða aðra, hún getur einnig gagnast manni sjálfum,“ segir Gunnhildur Sveinsdóttir, verkefnisstjóri í skyndihjálp og slysavörnum.

Ekki nóg að kunna... vilji til að hjálpa þarf að vera til staðar!
„Hæfni til að greina alvarlegan sjúkleika og vitneskja um hvort og hvernig á að kalla á hjálp er lífsnauðsynleg. Oft tefst greining vegna þess að hvorki sá nauðstaddi né nærstaddir þekkja alvarleg einkenni sjúkdóma eða slysaáverka, þannig hefur fólk sem fengið hefur hjartaáfall t.d. þurft að bíða lengi eftir hjálp þótt öll einkenni hafi verið fyrir hendi,“ segir Gunnhildur. Staðreyndin er því miður líka sú að margir veigra sér við því að beita skyndihjálp, jafnvel þótt þeir kunni hana. Hollenski Rauði Krossinn gerði nýverið viðamikla könnun á stöðu skyndihjálparmála þar í landi og niðurstöðurnar eru um margt athyglisverðar, að sögn Gunnhildar. „75% landsmanna þar yfir 18 ára aldri hafa einhvern tímann lært skyndihjálp en um 42% aðspurðra sögðust ekki vilja veita slösuðum eða sjúkum hana. Um 67% þátttakenda kunnu að stöðva blæðingu en þó vildu aðeins 31% veita slíka hjálp. Þessar niðurstöður vekja upp spurningar um raunverulegt gildi skyndihjálparþekkingar því áhugi og vilji til þess að hjálpa þegar á þarf að halda þarf auðvitað að vera til staðar,“ segir Gunnhildur og bætir við að ástæður þess að fólk vilji ekki beita skyndihjálp séu margþættar. „Sumir kunna ekki skyndihjálp og aðrir hugsa sem svo að einhver annar komi og hjálpi. Í einhverjum tilfellum gerir fólk sér ekki grein fyrir að á hjálp þurfi að halda og sumir eru hræddir um að sóða sig út. Svo eru einhverjir spéhræddir og segjast bara fara hjá sér. Án efa mætti leggja aukna áherslu á að fjalla um þessar hindranir á skyndihjálparnámskeiðum og reyna þannig að fá fólk til þess að taka þá ákvörðun að veita skyndihjálp þegar þörf er á.“ Gunnhildur nefnir sem dæmi að þrátt fyrir að um 80% Íslendinga hafi lært skyndihjálp sé endurlífgun aðeins reynd í um helmingi tilfella þegar einhver fær hjartastopp utan sjúkrahúsa og vitni eru að atburðinum. „Þó skiptir meginmáli fyrir líkur á bata að hefja endurlífgun sem allra fyrst; endurlífgun skiptir sköpum,“ bætir hún við með mikilli áherslu.

Endurmenntun mikilvæg
Í skýrslu starfshóps dómsmálaráðherra frá árinu 2003 segir að gera þurfi átak í að færa skyndihjálparkennslu inn í nám í öllum grunnskólum landsins og ná til fólks á vinnustöðum. Aðalnámskrá grunnskóla kveður líka skýrt á um skyndihjálparfræðslu til nemenda grunnskóla en Gunnhildur segir annað mál hvort skólar fari eftir þeim tilmælum, sumir geri það með prýði en aðrir ekki. „Það er krafa foreldra að þær starfsstéttir sem annist börn þeirra búi yfir hæfni til þess að koma til hjálpar og samkvæmt könnunum setja foreldrar öryggismál og skyndihjálparkunnáttu í forgang varðandi kunnáttu þeirra sem vinna með börnum þeirra. Skyndihjálparþekking innan fyrirtækja er mjög mismunandi og mætti víðast hvar vera betri. Til eru lög um skyndihjálparþekkingu t.d. starfsfólks á sundstöðum og sjómanna og þeirri fræðslu er oftast sinnt en endurmenntun á þessu sviði er almennt ábótavant. Hún er þó mjög nauðsynleg þegar skyndihjálp er annars vegar!“

Námskeið í skyndihjálp er góð fjárfesting
Gunnhildur hefur sjálf þurft að beita skyndihjálp og hefur oft losað aðskotahluti úr hálsi minni barna, kælt brunasár, stöðvað blæðingar o.fl. en endurlífgun hefur hún aðeins tekið þátt í inni á spítala. „Það er ómögulegt að segja til um hversu mörgum er bjargað árlega vegna skyndihjálparkunnáttu almennings. Við útnefnum skyndihjálparmann ársins á hverju ári og fáum 10-15 tilnefningar sendar inn. Það eru allt atvik þar sem lífi fólks hefur klárlega verið bjargað en fjöldi atvika er mun meiri en þetta. Því má heldur ekki gleyma að björgun getur líka falist í að forða frekari slysum, þ.e. tryggja öryggi á slysstað,“ segir Gunnhildur. Hún minnir á skyndihjálparnámskeið rauða Krossins sem eru sniðin að þörfum einstaklinga, hópa og fyrirtækja og haldin eru víða um land. „Skyndihjálparnámskeið er alltaf góð fjárfesting og nú eru sem dæmi margar deildir hjá okkur að fara af stað með námskeiðið Börn og umhverfi sem ætlað er krökkum frá tólf ára aldri.“ Nánari upplýsingar og góðar grunnleiðbeiningar varðandi skyndihjálp og endurlífgun má nálgast á netsíðunni www.rki.is.

Kunna Íslendingar skyndihjálp?

 
 Gynnhildur kennir skyndihjálp. Ljósmynd: Sigtryggur Ari Jóhannsson

Í janúar 2006 gerði Rauði Kross Íslands könnun á ýmsum þáttum sem tengjast skyndihjálp. Helstu niðurstöður voru eftirfarandi:
•    28% höfðu einhvern tímann þurft að beita skyndihjálp (þó er mismunandi hvað fólk telur vera skyndihjálp; t.d. að búa um sár eða beita endurlífgun).
•    Rúmlega fjórir af fimm sögðust hafa lært skyndihjálp.
•    Af þeim sem ekki höfðu lært skyndihjálp höfðu tæplega þrír af fjórum áhuga og sama hlutfall sagði að námskeið sem stæði í hálfan til einn dag væri hæfilegt hvað lengd varðaði.
•    Flestir sem lært höfðu skyndihjálp höfðu gert þaðj í mennta- eða fjölbrautaskóla (29,8%) og næstflestir á vinnustað (27,9%). Tæplega 19% þeirra sem lært höfðu skyndihjálp lærðu hana hjá Rauða Krossi Íslands.
•    Flestir nefndu hluta af skyldunámi sem helstu ástæðu þess að þeir lærðu skyndihjálp, þar á eftir nefndu svarendur eigin áhuga og því næst að um kröfu frá vinnuveitenda væri að ræða.

Þekkir þú einkennin ... og kannt þú að bregðast við?
Hjartaáfall
Hjartaáfall er afleiðing þess að blóðstreymi til einhvers hluta hjartans minnkar skyndilega eða stöðvast. Skjót greining og rétt viðbrögð eru forsenda þess að einstaklingur haldi lífi og nái viðunandi bata.

Einkenni:
-Óþægilegur þrýstingur, tak eða sársauki fyrir miðju brjóstinu, sem varir lengur en fáeinar mínútur eða kemur og fer.
-Verkur sem leiðir út í herðar, háls, kjálka, handleggi eða bak.
-Óþægindi fyrir brjósti sem fylgja svimi, yfirlið, ógleði, sviti og mæði.
-Verkum af völdum hjartaáfalls getur komið fram jafnt í hvíld sem eftir hreyfingu. Hann varir lengur en 10 mínútur og hverfur ekki fyrir tilverknað lyfja.

Viðbrögð:
-Hringdu í Neyðarlínuna, 112.
-Hagræddu einstaklingnum í þægilega stöðu.
-Fylgstu náið með ástandi einstaklingsins.
-Aðstoðaðu hann við töku hjartalyfs ef hann á það.
-Byrjaðu endurlífgun ef viðkomandi missir meðvitund og hættir að anda.

Heilablóðfall (slag)
Heilablóðfall er það kallað ef æðar sem sjá heilanum fyrir súrefnisríku blóði rofna eða stíflast og heilinn fær ekki nægt súrefni.

Einkenni:
-Fyrstu einkenni eru oftast væg, t.d. slappleiki og dofi í andliti, handlegg eða fótum, oft á annarri hlið líkamans.
-Skert talgeta og skilningur.
-Óskýr eða skert sjón.
-Svimi, minnkuð meðvitund eða jafnvægisleysi.
-Skyndilegur mikill og óskýrður höfuðverkur.

Viðbrögð:
-Biddu einstaklinginn að hlæja eða sýna tennurnar og athugaðu hvort munnurinn er boginn.
-Biddu hann að loka augunum og lyfta báðum handleggjum samtímis og snúa lófunum upp. Athugaðu hvort annar handleggurinn dettur niður.
-Fáðu sjúklinginn til að endurtaka einfalda setningu. Ef hann talar óskýrt eða þarf að leita að orðum gæti eitthvað verið að gerast.
-Hringdu á Neyðarlínuna, 112.
-Vertu hjá viðkomandi og fáðu hann til að hvíla sig í þægilegri stöðu.
-Fylgstu með meðvitund og öndun.

Endurlífgun
Beita þarf endurlífgun ef um öndunar- og hjartastopp er að ræða. Hjartaáfall er algengasta dánarorsökin á Vesturlöndum. Drukknun, köfnun, raflost, lost og lyfjaeitrun geta einnig valdið hjartastoppi. Ljóst er að ef hjartastopp verður utan sjúkrahúss skiptir meginmáli fyrir líkur á bata að hefja endurlífgun sem allra fyrst.
-Í tilfellum þar sem um skyndilegt meðvitundarleysi er að ræða skaltu hringja strax í Neyðarlínuna, 112, áður en þú ferð út í frekari aðgerðir.
-Athugaðu viðbrögð við áreiti. Ef einstaklingurinn bregst ekki við skaltu kanna öndun.
-Opnaðu öndunarveg og kannaðu hvort öndun er eðlileg. Leggðu vangann við andlitið og horfðu hvort brjóstkassinn hreyfist, hlustaðu eftir öndunarhljóðum og reyndu að finna hvort viðkomandi andar frá sér.
-Byrjaðu strax endurlífgun með hjartahnoði og blæstri ef engin viðbrögð eru til staðar og öndun er óeðlileg. Þegar um börn er að ræða skal fyrst framkvæma endurlífgun í eina mínútu, áður en hringt er á aðstoð!

Hjartahnoð
-Hnoðaðu á taktinum 100 hnoð á mínútu á miðjan brjóstkassann með beinum handleggjum. Úlnliðir og olnbogar eiga að vera læstir og axlir beint yfir hnoðstað.
-Léttu öllum þunga af brjóstkassanum eftir hvert hnoð.

Blástur
-Opnaðu öndunarveginn með því að setja aðra hendi á ennið og ýttu höfðinu aftur, lyftu samtímis undir hökuna með hinni hendinni.
-Dragðu eðlilega að þér andann og blástu þannig að þú sjáir brjóstkassann lyftast aðeins. Komist loftið ekki ofan í lungun skaltu reyna að sveigja höfuðið aðeins betur.