Sálrænn stuðningur við fólk sem kemur að slysum og áföllum

18. jún. 2009

Fólk sem kemur að slysum og öðrum alvarlegum atburðum sem vitni, tilkynnendur og þátttakendur í skyndihjálp, björgun og sálrænum stuðningi fær nú tilboð um sálrænan stuðning til að vinna úr reynslu sinni. Þetta er gert í samvinnu Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS) og Rauða kross Íslands fyrir hönd Hjálparsíma Rauða krossins, 1717. Hanna Birna Kristjánsdóttir, borgarstjóri og formaður stjórnar SHS, og Anna Stefánsdóttir, formaður Rauða krossins, undirrituðu samkomulag um verkefnið í dag.

Fjöldi venjulegra borgara kemur ár hvert að alvarlegum atburðum sem geta haft áhrif á andlega og líkamlega líðan þeirra í kjölfarið. Áður en slökkvilið og lögregla koma að hefur venjulegt fólk iðulega lagt sig fram um að sinna bráðaaðgerðum til bjargar lífi og heilsu. Framlag þessa fólks er afar mikilvægt fyrir fórnarlömb og viðbragðsaðila. SHS og Rauði krossinn meta það að verðleikum en gera sér grein fyrir að þátttaka í atburðum af þessu tagi getur haft áhrif á líðan viðkomandi og hafa því tekið höndum saman um að bjóða sálrænan stuðning. Samstarfið varð til að frumkvæði og fyrir milligöngu einstaklings sem þótti þörf á því í ljósi eigin reynslu og annarra.

Handhæg kort með upplýsingum um hugsanlegar afleiðingar verða á næstunni sett í alla útkallsbíla SHS. Á kortinu er viðkomandi bent á að full ástæða geti verið til að viðra reynslu sína við góðan vin eða sjálfboðaliða Hjálparsímans 1717, en hann er gjaldfrjáls og  opinn allan sólarhringinn. Einkunnarorð 1717 eru hlutleysi, skilningur, nafnleysi og trúnaður. Sjálfboðaliðar Hjálparsímans hafa þegar fengið sérstaka þjálfun til þess að taka við símtölum af þessu tagi. Rauði krossinn mun koma kortinu á framfæri við rekstraraðila sjúkraflutninga og aðra viðbragðsaðila utan höfuðborgarsvæðisins.

Þegar starfsmenn SHS koma á vettvang þar sem alvarleg meiðsl eða sjúkdómar eiga í hlut leitast þeir við að átta sig á þátttöku vegfarenda í atvikinu. Þeir afhenda viðkomandi síðan kortið og hvetja þá til að hringja í 1717 og ræða atvikið. Í sérstökum tilvikum mun 1717 hafa frumkvæði að því að grennslast fyrir um líðan viðkomandi, samkvæmt beiðni SHS.

SHS og Rauði krossinn hafa um árabil átt farsælt samstarf um sjúkraflutninga, viðbrögð við eldsvoðum og almannavarnir. Sjúkrabílar um allt land eru í eigu Rauða krossins en slökkvilið og fleiri annast rekstur þeirra. Deildir Rauða krossins veita fræðslu um skyndihjálp og sálrænan stuðning.