Tilraunaverkefni með miðbæjarölt hjá skyndihjálparhópi URKÍ-R

28. júl. 2009

Skyndihjálparhópur Ungmennahreyfingar Rauða krossins í Reykjavík hefur síðustu fjórar helgar verið á miðbæjarrölti og sinnt sjúkragæslu eftir þörfum. Um er að ræða tilraunaverkefni.

Það var nóg að gera og borgarbúar virtust hrifnir, ánægðir og forvitnir um þetta nýja framtak Rauða krossins. Vonast er til að viðvera hópsins í miðbænum hafi verið mörgum til góðs.

Skyndihjálparhópurinn er eitt elsta verkefni Reykjavíkurdeildarinnar, stofnað árið 1989 og hefur starfað óslitið síðan. Meðal verkefna sem hópurinn hefur tekið að sér eru sjúkragæsla á stórtónleikum, á framhaldsskólaböllum og á ýmsum öðrum mannamótum s.s. á menningarnótt.

Til að taka þátt í skyndihjálparhópnum þurfa meðlimir að vera orðnir 18 ára og ljúka 12 klukkustunda námskeiði í skyndihjálp. Nánari upplýsingar í síma 545 0407 og hægt er að senda póst á berglind@redcross.is.