Vönduð og hagnýt skyndihjálparnámskeið hjá Rauða krossinum

7. okt. 2009

Vissir þú að oftast eru það vinir eða ættingjar sem koma fyrstir á vettvang þegar einhver slasast eða veikist alvarlega? Stutt skyndihjálparnámskeið getur gert þér kleift að bjarga mannslífi þegar mínútur skipta máli.

Rauði kross Íslands býður upp á hagnýt námskeið í skyndihjálp fyrir þá sem vilja öðlast færni og þekkingu í að veita nærstöddum aðstoð í bráðatilfellum. Námskeiðin eru haldin um allt land og eru einnig í boði á erlendum tungumálum. Áhersla er lögð á verklegar æfingar þar sem þátttakendur setja sig í spor þess sem kemur fyrstur á vettvang slyss eða alvarlegra veikinda. Á námskeiðunum er meðal annars notast við kennslubrúður og er farið yfir hvernig nota á hjartastuðtæki. 

Áralöng reynsla og þekking
Rauði kross Íslands hefur í áratugi gegnt forystuhlutverki í því að uppfræða almenning hér á landi um skyndihjálp. Á hverju ári eru haldin hundruð skyndihjálparnámskeiða þar sem boðið er upp á vandað fræðsluefni og fjölbreyttar kennsluaðferðir. Kennarar á námskeiðunum hafa mikla reynslu af því að kenna skyndihjálp og víðtæka þekkingu á fyrstu viðbrögðum við neyð. Þátttakendur fá skírteini sem vott um að hafa lokið þjálfun í skyndihjálp.

Fræðsluefni fyrir einstaklinga og fyrirtæki

Rauði krossinn gefur út ýmis konar fræðsluefni um skyndihjálp, þar á meðal veggspjöld, bæklinga og kennslubækur á ýmsum tungumálum. Fræðsluefnið má nálgast á landsskrifstofu Rauða krossins að Efstaleiti 9, s. 5704000, afgreidsla@redcross.is