Varúðarráðstafanir á skyndihjálparnámskeiðum vegna útbreiðslu H1N1 veirunnar

20. okt. 2009

Í tengslum við útbreiðslu H1N1 veirunnar telur Rauði kross Íslands rétt að koma eftirfarandi skilaboðum á framfæri til leiðbeinenda í skyndihjálp. Leiðbeiningar hafa verið samþykktar af sóttvarnarsviði Landlæknisembættisins.

Almennt hreinlæti og aðrar varúðarráðstafanir til að forðast hverskonar smit.
•    Handþvottur er lykilatriði í öllum smitvörnum. Mikilvægt er að skyndihjálparmaður þvoi sér með vatni og sápu  fyrir og eftir að búið er að veita skyndihjálp ef hægt er.
•    Forðast ber beina snertingu við blóð og aðra líkamsvessa og æskilegt að einnota hlífðarhanska þegar skyndihjálp er veitt einkum þegar snerting við líkamsvessa er fyrirsjáanleg. Ef hlífðarhanskar eru ekki við hendina má notast við hvaðeina sem skýlir höndum eins og hreint plast eða klæði.
•    Hylja skal sár eða skrámur á höndum skyndihjálparmanns með hreinum umbúðum eða plástri.
•    Forðast skal að hósta eða hnerra yfir þann sem er aðstoðaður.
•    Ef munn við munn aðstoð er beitt er mælt með notkun á öndunargrímu.
•    Notaðar grisjur, hanskar og þess háttar er sett  í lokaða plastpoka að notkun lokinni og síðan í sorp.

Blástur í kennslubrúður
•    Ekki þykir  ástæða til að breyta endurlífgunarkennslu þrátt fyrir að heimsfaraldur inflúensu A(H1N1) standi yfir. Áfram skal kennt bæði hnoð og blástur.
•    Farið er fram á að þátttakendur á námskeiðum þvoi sér vel um hendurnar áður en verklegar æfingar hefjast.
•    Hreinsa á munninn á brúðum á milli þátttakenda sem blása með þar til gerðu  spritti, bíða þar til það er þurrt eða í um 30 sekúndur.
•    Eftir hvert námskeið á að þrífa andlitið á brúðum að innan og utan með hreinum klúti og mildu sápuefni, strjúka yfir búkinn og skipta um lungu .
•    Ef einhver á námskeiði er með sár á slímhúð í munni eða á vörum, er veikur, t.d. með einkenni frá öndunarfærum eða með hita á hann ekki að blása í brúðurnar. Fólki sem er með inflúensueinkenni er eindregið ráðlagt að halda sig heima á meðan á veikindum stendur.

Góð hreinsun og sótthreinsun minnkar hættuna á smiti. Eins og áður hefur verið tekið fram er handþvottur sérlega mikilvægur áður en brúðan er snert.