Hvað er skyndihjálp?

16. mar. 2003

Skyndihjálp er sú aðstoð sem veitt er veikum eða slösuðum einstaklingi á meðan beðið er eftir sjúkrabíl eða lækni. Sá sem kann fáein einföld undirstöðuatriði í skyndihjálp getur bjargað mannslífi eða komið í veg fyrir að hinn veiki eða slasaði verði fyrir varanlegum skaða.

Markmið námskeiða í skyndihjálp eru:

  • að viðhalda lífi
  • að auka líku á bata
  • að koma í veg fyrir að það ástand sem orðið er versni
  • að auka öryggi samborgaranna með aukinni útbreiðslu á skyndihjálparkunnáttu

Rétt viðbrögð geta skilið milli lífs og dauða

Útköll neyðarbíls Slökkviliðs Reykjavíkur eru 3.000 - 3.500 á ári. Í átta af hverjum tíu tilvikum er um alvarlegan sjúkdóm eða alvarlegt slys að ræða.

Þeir einstaklingar sem eru fórnarlömb veikinda eða slysa eiga oft á tíðum líf sitt komið undir þekkingu samborgaranna á skyndihjálp. Rétt viðbrögð meðan beðið er eftir aðstoð geta skipt sköpum og oft skilið milli lífs og dauða. Til að geta brugðist rétt við er nauðsynlegt að hafa góða þekkingu á skyndihjálp.

Menntun í skyndihjálp
Samkvæmt samkomulagi við Almannavarnir ríkisins er Rauði kross Íslands eini aðilinn sem getur gefið leiðbeinendum réttindi til kennslu í skyndihjálp.

Eftir að hafa sótt námskeið í skyndihjálp hjá Rauða krossinum fá þátttakendur afhent skírteini sem þeir geta til dæmis látið fylgja með atvinnuumsókn. Það hljóta að vera hagsmunir hvers vinnuveitanda að hafa starfsfólk sem hefur þekkingu og kunnáttu í skyndihjálp.

Skyndihjálparnámskeið Rauða krossins
Á námskeiðum Rauða krossins í skyndihjálp er farið yfir eftirfarandi atriði:

grundvallarreglur í skyndihjálp, endurlífgun, meðvitundarleysi, lost, blæðingu, sár, beinbrot, brunasár, rafmagnsslys, kal, ofkælingu, ofhitnun, bráða sjúkdóma, aðskotahluti í hálsi, eitranir, sálræna skyndihjálp, umbúðir og flutning slasaðra.

Misjafnt er eftir lengd námskeiðs hvaða atriði eru tekin fyrir.

  • 16 stunda námskeið í skyndihjálp
  • 12 stunda námskeið í skyndihjálp
  • 8 stunda námskeið í skyndihjálp
  • Slys á börnum - 8 kennslustundir

Vakin er athygli á þeim slysum sem algengast er að börn lendi í og kennt hvaða fyrstu hjálp skuli veita. Einnig er fjallað um hvernig hugsanlega megi koma í veg fyrir slík slys.

Sálræn skyndihjálp
Farið er yfir muninn á stóráfalli og áfalli, áhrif áfalls á einstaklinginn, eðlileg viðbrögð einstaklinga við óeðlilegum aðstæðum, áhrif streitu, ýmsar tegundir lífskreppu, hvernig við getum best veitt mannlegan stuðning, áhrif áfalls á barn, hvernig við getum best veitt barni stuðning í kjölfar áfalls, sorgarferlið og sorg barna.