Rauði krossinn opnar Neyðarmiðstöð og hleypir af stokkum skyndihjálparátaki

10. des. 2013

Þriðjudaginn 10. desember kl. 14:00 mun forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, opna formlega nýja Neyðarmiðstöð Rauða krossins á Íslandi í húsi Rauða krossins að Efstaleiti 9. Neyðarmiðstöðinni er ætlað að samhæfa betur neyðarviðbrögð félagsins á tímum áfalla. Þar verða sameinuð undir einum hatti verkefni Rauða krossins í neyðarvörnum, skyndihjálp, áfallahjálp og sálrænum stuðningi. 

Neyðarvarnir eru stærsta verkefni Rauða krossins á landsvísu, en um 750 sjálfboðaliðar félagsins um allt land eru til taks ef hamfarir eða skyndileg áföll dynja yfir. Þessir sjálfboðaliðar hafa verið þjálfaðir í að setja upp fjöldahjálparstöðvar og veita sálrænan stuðning, áfallahjálp og skyndihjálp þegar mikið liggur við.

Neyðarvarnir eru skylduverkefni allra deilda samkvæmt samningi Rauða krossins og ríkisins, og stöðuga þjálfun þarf til þess að halda sjálfboðaliðum í neyðarvörnum virkum. Hinni nýju Neyðarmiðstöð er ætlað að samhæfa þessa vinnu auk þess að stjórna svörun upplýsingasíma fyrir almenning í almannavarnaástandi.

Við opnun Neyðarmiðstöðvar verður einnig undirritað samkomulag um að fela Rauða krossinum samhæfingu áfallahjálpar í skipulagi almannavarna á Íslandi. Biskupsstofa, Landlæknir, Landspítalinn, Ríkislögreglustjóri og Samband íslenskra sveitarfélaga standa að samkomulaginu auk Rauða krossins.

Þá mun Rauði krossinn helga afmælisári félagsins átaki í skyndihjálp, en á næsta ári eru 90 ár liðin frá stofnun þess. Markmið átaksins er að byggja upp kunnáttu og færni almennings í skyndihjálp, þekkingu sem situr eftir með þjóðinni. Rauði krossinn mun útbúa skemmtilegt, fræðandi og fjölbreytt efni fyrir alla aldurshópa, til dæmis tónlist, teiknimyndir og stuttmyndir, sem ganga út á að sýna réttu handtökin í skyndihjálp.

Einnig munu forsvarsmenn fyrirtækisins CCP afhenda Neyðarmiðstöðinni 22 milljóna króna framlag frá spilurum tölvuleiksins Eve Online til hjálparstarfs Rauða krossins vegna hamfaranna á Filippseyjum.