14. maí 2010 : Hvar þrengir að? Ungt fólk og börn verða verst úti í kreppunni

Fimm hópar standa verst að vígi  í íslensku samfélagi samkvæmt skýrslu Rauða krossins Hvar þrengir að?  Þetta eru atvinnuleitendur, barnafjölskyldur og einstæðir foreldrar, innflytjendur, öryrkjar með börn, og ungt fólk sem skortir tækifæri.  Börn og ungmenni eru þeir hópar sem sérstaklega verður að huga að í framtíðinni: þau verða verst úti við langvarandi áhrif efnahagskreppunnar og eiga á hættu að festast í vítahring fátæktar. 

Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar á málþingi sem Rauði krossinn heldur í dag föstudaginn 14. maí, kl. 14:00-17:00, í Háskóla Íslands, Háskólatorgi, stofu 105. Þetta er í fjórða sinn sem slík skýrsla er unnin fyrir Rauða krossinn á síðustu 16 árum til að finna þá hópa sem búa við verstu kjörin í íslensku þjóðfélagi svo félagið geti skilgreint hvar þörfin fyrir aðstoð er mest hverju sinni og vakið athygli almennings og stjórnvalda á aðstæðum berskjaldaðra á Íslandi.