Hvar þrengir að? Ungt fólk og börn verða verst úti í kreppunni

14. maí 2010

Fimm hópar standa verst að vígi  í íslensku samfélagi samkvæmt skýrslu Rauða krossins Hvar þrengir að? Þetta eru atvinnuleitendur, barnafjölskyldur og einstæðir foreldrar, innflytjendur, öryrkjar með börn, og ungt fólk sem skortir tækifæri. Börn og ungmenni eru þeir hópar sem sérstaklega verður að huga að í framtíðinni: þau verða verst úti við langvarandi áhrif efnahagskreppunnar og eiga á hættu að festast í vítahring fátæktar. 

Niðurstöður könnunarinnar verða kynntar á málþingi sem Rauði krossinn heldur í dag föstudaginn 14. maí, kl. 14:00-17:00, í Háskóla Íslands, Háskólatorgi, stofu 105. Þetta er í fjórða sinn sem slík skýrsla er unnin fyrir Rauða krossinn á síðustu 16 árum til að finna þá hópa sem búa við verstu kjörin í íslensku þjóðfélagi svo félagið geti skilgreint hvar þörfin fyrir aðstoð er mest hverju sinni og vakið athygli almennings og stjórnvalda á aðstæðum berskjaldaðra á Íslandi.

Í skýrslunni kemur fram að börn séu sérstaklega berskjölduð vegna afleiðinga efnahagsþrenginganna, þar sem fátækt komi öðruvísi við þau en fullorðið fólk. Þar skipti mestu máli hversu lengi ástandið varir. Langvarandi fátækt geti haft áhrif á börn langt fram á fullorðinsár, á félagslega þátttöku barna t.d. í tómstundarstarfi, og getur leitt til einangrunar og að þau verði útundan í samfélaginu.

Ungt atvinnulaust fólk á einnig erfitt uppdráttar að mati viðmælenda Rauða krossins. Margir óttast að heil kynslóð ungs fólks festist í langtímaatvinnuleysi og týnist í fátækt. Samkvæmt finnskum rannsóknum er þunglyndi einn stærsti og alvarlegasti fylgifiskur atvinnuleysis, og ótímabær útganga fólks af vinnumarkaði leiðir oft til örorku vegna andlegra kvilla. 

Skýrslan byggist á upplýsingum frá 69 einstaklingum víðsvegar að af landinu Þátttakendur voru sérfræðingar sem starfs síns vegna búa yfir upplýsingum um þá sem höllum fæti standa. Að auki er litið til niðurstaðna netkönnunar meðal almennings sem framkvæmd var af MMR. Vinna við rannsóknina hófst í febrúar 2010 og lauk nú í byrjun maí.

Niðurstaða skýrslunnar mun nýtast Rauða krossi Íslands við mótun nýrrar stefnu til ársins 2020. Í kjölfar samskonar kannana undir sömu formerkjum Hvar þrengir að? sem gerðar voru 1994, 2000, og 2006, jók Rauði kross Íslands til að mynda mjög starf sitt með geðfötluðum, efldi heimsóknarþjónustu fyrir aldraða og sjúka til að rjúfa félagslega einangrun, og hleypti af stokkunum verkefnum í þágu innflytjenda.

Sérstakur gestur málefnaþingsins er formaður Rauða krossins í Ungverjalandi, Georg Habsburg, sem mun kynna afleiðingar efnahagskreppunnar á starfsemi Rauða kross félaga í Evrópu.

Skýrslan á ensku: The most vulerable Groups ín Iceland