Skerpa þarf á flestum lögum og reglugerðum til að greiða fyrir alþjóðlegri aðstoð

19. feb. 2014

Samkvæmt greiningarskýrslu sem lögmannstofan Logos vann fyrir Rauða krossinn  myndu íslensk lög og reglugerðir virka hamlandi á aðkomu alþjóðlegs hjálparliðs á neyðartímum hér á landi. Þetta kom fram á fjölsóttu málþingi sem Rauði krossinn stóð fyrir í dag.

Þetta á við í flestum þáttum sem við eiga til að mynda vegabréfsáritanir, tímabundið atvinnuleyfi, viðurkenning starfsréttinda sérfræðinga, tolla, matvæla- og lyfjainnflutning og innflutning á dýrum til björgunarstarfa svo eitthvað sé nefnt. Einnig þarf að líta til fjarskiptamála, fjármagnsflutninga, samskipta við fjölmiðla og flutning hjálpargagna.

Eins þarf að greina hver tæki ákvörðun um að kalla eftir alþjóðlegri aðstoð, þar sem slíkt er ekki einungis metið út frá aðgerðarstjórnun heldur er einnig um pólitíska ákvörðun að ræða.  Þá þarf að meta umfang aðgerða og getu viðbragðsaðila í almannavarnakerfinu, sem er mjög öflugt hér á landi.

Þörf er á samstarfi löggjafa, stjórnsýslu og viðbragðsaðila til að greiða fyrir breyttu regluverki sem auðveldaði alþjóðlegt hjálparstarf í kjölfar stórra hamfara eða atburða sem innlendir viðbragðsaðilar ráða ekki einir við. Gert er ráð fyrir að sú vinna fylgi í kjölfar skýrslu Rauða krossins.

Greiningin er þáttur í fjölþjóðlegu almannavarnaverkefni sem Rauði krossinn á Íslandi var fenginn til að leiða, og hlaut til þess styrk frá ECHO, neyðarsjóði Evrópusambandsins. Systurfélög Rauða krossins í Finnlandi, Írlandi, Lettlandi og Póllandi taka þátt í verkefninu auk stjórnvalda í hverju landi. Þá kemur Alþjóða Rauði krossinn að ráðgjöf og samhæfingu. Logos studdi verkefnið með vinnu sinni.

Megintilgangur verkefnisins er að einfalda aðkomu erlends hjálparliðs og hjálpargagna milli landa á neyðartímum og þegar hamfarir verða. Hluti af verkefninu verður í formi almannavarnaæfingar þar sem æfð verða alþjóðleg viðbrögð við náttúruhamförum hér á landi.

Skýrslan