Hvaðan fær Rauði krossinn peninga?

12. mar. 2003

Árlega ver Rauði kross Íslands milli 600 og 700 milljónum króna til hjálparstarfs heima og erlendis. Algengur misskilningur er að meiri hlutinn af þessu fé fari til alþjóðlegra hjálparstarfa. Í grófum dráttum fer um þriðjungur af tekjunum til alþjóðlegra hjálparstarfa, þriðjungur til deilda félagsins, sem eru 51 um allt land, og þriðjungur í hjálparstarf innanlands á vegum aðalskrifstofu.

Tekjurnar fást að langmestu leiti í gegnum hlutdeild Rauða krossins í Íslenskum söfnunarkössum en einnig fá SÁÁ og Slysavarnafélagið Landsbjörg fé úr kössunum. Hér er um að ræða þá söfnunarkassa sem ekki eru samtengdir, en þeir kassar eru í eigu Happdrættis Háskóla Íslands.

Rauði krossinn leggur vaxandi áherslu á annars konar fjáröflun, til dæmis með baukasöfnunum, sölu jólakorta, gjöfum frá einstaklingum og fyrirtækjum, styrktarmannakerfi og svo framvegis. Þá styðja fjölmörg fyrirtæki starf félagsins með ýmsu móti.

Styrktarmannakerfi Rauða krossins er þannig að fólk skráir sig fyrir minnst 2.500 króna greiðslu á ári og það fé fer til eins verkefnis, sem valið er árlega. Árin 2000 - 2002 var fénu varið til baráttunnar gegn alnæmi í Afríku, árið 2003 fór féð til aðstoðar við fólk sem varð illa úti í kuldunum í Mongólíu og frá 2004 er lögð áhersla á að hjálpa börnum í stríði. Ef þú vilt gerast styrktarfélagi geturðu gert það hér á vefnum.