Hvað er sjálfboðavinna?

12. mar. 2003

Rauði krossinn er félag sjálfboðaliða með starfsemi um allt land. Sjálfboðaliðar aðstoða fólk í þrengingum á margvíslegan hátt; lesa fyrir sjúka, heimsækja fanga, leiðbeina flóttamönnum og hjálpa ungmennum í vanda.

Á höfuðborgarsvæðinu manna sjálfboðaliðar Hjálparsímann 1717, hjálpa til í Vin og Dvöl sem eru athvörf fyrir geðfatlaða, flokka föt, heimsækja sjúka og aldraða og taka virkan þátt í starfi Ungmennahreyfingar Rauða krossins.

Rauði kross Íslands sinnir víðtæku hjálparstarfi innan lands og utan. Á hverju ári sendir félagið 25 til 30 sendifulltrúa til aðstoðar á vettvangi, bregst við neyðarástandi með fjárframlögum og aðstoðar við uppbyggingu landsfélaga Rauða krossins.

Deildir félagsins eru 51 um allt land. Aðalstarf þeirra er mannúðaraðstoð á heimavelli, unnin í sjálfboðinni vinnu. Þær aðstoða flóttamenn, kenna skyndihjálp, hjálpa einstaklingum í þrengingum, safna fötum til neyðarhjálpar, starfa með börnum og ungmennum og gegna lykilhlutverki í neyðarvörnum.

Ef þú hefur áhuga á að gerast sjálfboðaliði getur þú fengið frekari upplýsingar með því að skrá þig hér á vefnum.