Í hverju er alþjóðastarfið fólgið?

12. mar. 2003

Hjálparstarf Rauða krossins á rætur að rekja til aðstoðar við særða hermenn. Á okkar dögum aðstoðar hreyfingin einkum almenna borgara og stríðsfanga. Rauði kross Íslands tekur virkan þátt í hjálparstarfi Alþjóðahreyfingar Rauða krossins á neyðarsvæðum, þar sem íbúar eru hjálpar þurfi vegna stríðs eða annarra hamfara. Félagið leggur til fjármagn, fatnað og fólk í þessu skyni og á náið samstarf við Alþjóðahreyfingu Rauða krossins og önnur landsfélög.

Rétt eins og samhugur Íslendinga verður hvað sterkastur þegar ósköp á borð við snjóflóð og eldgos dynja yfir fjölskyldur og einstaklinga kemur styrkleiki Rauða kross hreyfingarinnar vel í ljós þegar stríð og hamfarir verða. Þá sameinast alþjóðahreyfingin og landsfélögin um að lina þjáningar fórnarlambanna og aðstoða þau við að takast á við lífið eftir áfallið.

Aðstoðin getur varað lengi. Samfélagsbyggingin hrynur og endurreisnin tekur tíma. Þar getur landsfélag Rauða krossins eða Rauða hálfmánans í viðkomandi landi gegnt lykilhlutverki og Rauði kross Íslands hefur lagt sérstaka áherslu á að styrkja systurfélög sín til þess að takast á við brýn verkefni í eigin landi.

Rauði kross Íslands sendir að jafnaði 25 til 30 sendifulltrúa til alþjóðlegra hjálparstarfa á hverju ári. Meðal verkefna þeirra er að meta þarfirnar eftir náttúruhamfarir, skipuleggja hjálparstarf og sinna margvíslegum störfum sem miða að því að tryggja að aðstoðin komist til skila.

Félagið leggur metnað sinn í að bregðast fljótt og vel við þegar neyðarástand skapast. Í þróunar- og uppbyggingarstarfi einbeitir Rauði kross Íslands sér að löndum í suðurhluta Afríku. Þannig myndast þekking og persónuleg tengsl sem stuðla að enn betri árangri.

Fyrir tilstuðlan Rauða kross Íslands er hægt að hjúkra dauðvona alnæmissjúklingum í Suður-Afríku, aðstoða götubörn í Mósambík, koma munaðarlausum börnum til fósturforeldra í Malaví og veita heilbrigðisþjónustu í fátækum fjallahéruðum Lesótós. Notuð föt sem Íslendingar gefa til hjálparstarfa koma að góðum notum í sunnanverðri Afríku og víðar þar sem þarfirnar eru miklar.

Vinadeildasamstarf við fátækari landsfélög hefur gefið sjálfboðaliðum um allt land tækifæri til að taka áþreifanlega þátt í alþjóðastarfinu. Þannig hafa deildir Rauða kross Íslands stutt rekstur heilsugæslustöðva í Lesótó, sent fatagáma til Gambíu og tekið þátt í margvíslegum samskiptum og stuðningi við deildir í Suður-Afríku, Mósambík, Júgóslavíu, Albaníu og Úsbekistan.

Ekki má heldur gleyma alþjóðlegu samstarfi Rauða krossins, sem meðal annars felst í því að berjast fyrir framgangi mannúðarmála á heimsvísu. Langmikilvægasta afrek Rauða kross hreyfingarinnar er að nú eru Genfarsamningarnir í gildi í næstum hverju einasta ríki heims og hafa áunnið sér hefðarrétt, sem þýðir að öllum er skylt að fylgja meginreglum þeirra. Á undanförnum árum hefur hreyfingin beitt sér fyrir banni við jarðsprengjum, sem nú hefur verið samþykkt af flestum ríkjum heims, banni við herskráningu barna undir 18 ára aldri og margvíslegum réttindamálum óbreyttra borgara sem verða fyrir barðinu á ófriði. Rauði krossinn er að rannsaka hvernig óheft útbreiðsla smávopna virkar eins og eldsneyti á ófriðarbál víða í heiminum og gera má ráð fyrir að hreyfingin beiti sér í auknum máli fyrir því að sala á slíkum vopnum verði háð takmörkunum.