30. nóv. 2008 : Fatasöfnunargámur Rauða Krossins

Fatasöfnunargámur Grindavíkurdeildar er staðsettur við hús deildarinnar að Hafnargötu 13 í Grindavík.

Um leið og við þökkum ykkur kærlega fyrir fataframlagið biðjum við ykkur vinsamlegast að hafa fötin í vel lokuðum plastpokum þegar þið setjið þau í gáminn.

Þeir sem vilja losa sig við prjóna- og/eða saumavörur eru vinsamlegast beðnir um að setja það í gáminn í sérmerktum  pokum eða koma með það á opnunartíma skrifstofu.

29. nóv. 2008 : Leikskólabörn koma í heimsókn

Elstu börnin í leikskólum Grindavíkur, Króki og Laut, komu í heimsókn til Grindavíkurdeildar RKÍ þann 11. nóvember síðastliðinn. Glatt var á hjalla og spennandi að fá að skoða sjúkrabílinn – hver veit nema hér hafi sjúkraflutningafólk framtíðarinnar verið á ferðinni. Börnin fengu endurskinsborða, horfðu á mynd með Rauðakrossstráknum Hjálpfúsa og fengu íspinna. Starfsmaður deildarinnar var síðan kvaddur með söng sem í báðum tilfellum átti mjög vel við – Krókur með endurvinnslulagið og Laut með hjálparhandalagið – þetta gat ekki verið betra.

Þessar heimsóknir hafa verið árviss viðburður hjá Grindavíkurdeild RKÍ um nokkurt skeið og notið ánægju og vinsælda. 

27. nóv. 2008 : Handavinnuhópurinn

Handavinnuhópur Grindavíkurdeildar, sem samanstendur af hressum sjálfboðakonum, kom fyrst saman árið 2000 og leiddi Sigurlaug Gröndal hópinn fyrstu árin. Birna Zophaníasdóttir tók síðan við árið 2003 og undir styrkri stjórn hennar hittist hópurinn á tveggja vikna fresti yfir vetrartímann og framleiðir ungbarnapakka sem sendir eru til Gambíu.

Verkefnið “Föt sem framlag” er styrktarverkefni til hjálparstarfs í Afríku. Aðaláherslan er á að útbúa fatapakka fyrir börn að eins árs aldri en einnig hefur verið saumað á eldri börn. Minnst berst af ungbarnafötum í fatasöfnunargámana og er verkefninu þannig ætlað að draga úr þessum skorti. Deildir sjá um að kaupa efni til framleiðslu  fatnaðar og í sumum tilfellum er hægt að leita til Fataflokkunar varðandi efni.

13. nóv. 2008 : Friðarliljurnar – söngdívurnar okkar

Fyrir jólin árið 2003 tóku nokkrar Rauða kross konur sig saman og sungu fyrir heimilisfólkið í Víðihlíð við mikla ánægju hlustenda.  Í framhaldi af þessari uppákomu var stofnaður sönghópur sem síðar hlaut nafnið Friðarliljurnar. Friðarliljurnar hafa síðan í ágúst 2004 sungið fyrir heimilisfólkið í Víðihlíð einu sinni í mánuði auk þessa sem þær hafa verið fengnar til að taka lagið við ýmis tækifæri á öðrum vettvangi.

Frá því í vor hafa þær sungið með eldri borgurum Reykjanesbæjar í Reykjaneshöllinni einu sinni í mánuði og 13. nóvember síðastliðinn sungu þær fyrir heimilisfólkið á Hlévangi í Reykjanesbæ og munu syngja þar einu sinni í mánuði.

Þetta er frábært og þakkarvert framtak sem þessar konur sinna í sjálfboðastarfi til að gleðja og kæta aldnar sem ungar sálir.

13. nóv. 2008 : Fjöldahjálparstjóranámskeið

Á dögunum var haldið námskeið fyrir fjöldahjálparstjóra í Grindavík,  en nokkur tími er síðan slíkt námskeið var haldið hjá deildinni. Á námskeiðinu er meðal annars farið yfir skipulag almannavarna og hver þáttur Rauða krossins er í þeim, fyrirlestur um fjöldahjálp, auk þess sem æfð er skráning og opnum fjöldahjálparstöðvar.

Námskeiðið var haldið í húsnæði Grunnskólans, sem er skilgreind fjöldahjálparstöð og var vel sótt af heimamönnum.  Þátttakendur voru áhugasamir og tóku virkan þátt í verkefnum og æfingum sem lagðar voru fyrir. Í tengslum við námskeiðið hefur verið unnið að uppfærslu neyðarvarnaáætlunar Grindavíkurdeildar og er því verki nú að mestu lokið.
 

12. nóv. 2008 : Gengið til góðs

Í Grindavík gengu 40 sjálfboðaliðar til góðs þann 4. október síðastliðinn og voru það aðalega krakkar úr Grunnskóla Grindavíkur. Heldur færri gengu nú en fyrir tveimur árum og heldur minna safnaðist en við því mátti búast í ljósi aðstæðna í samfélaginu.
Undantekningarlaust fengu sjálfboðaliðar okkar góðar móttökur og þökkum við þeim kærlega sem gengu og auðvitað öllum þeim sem styrktu söfnunina með fjárframlögum.   

Til gamans má geta þess að í Árnessýslu gekk ótrúlega vel að fá sjálfboðaliða og söfnunin gekk vonum framar. Má rekja það beint til þess að fólk þar hafði í raun og veruleika orðið vitni að og notið góðs af starfi RKÍ þegar jarðskjálftarnir dundu yfir í vor.

Á Landsvísu gengu um 1000 sjálfboðaliðar til góðs með Rauða krossinum til styrktar verkefnis um sameiningu fjölskyldna í Kongó sem sundrast hafa vegna stríðsátaka. 

3. nóv. 2008 : Unnið úr jarðskjálftareynslu

Á þriðjudag hóf Rauði krossinn fræðsluverkefni fyrir börn, ungmenni og forsjáraðila þeirra, í kjölfar jarðskjálftanna á Suðurlandi í vor. Grein um verkefnið birtist í Morgunblaðinu 30. október 2008.

3. nóv. 2008 : Unnið úr jarðskjálftareynslu

Á þriðjudag hóf Rauði krossinn fræðsluverkefni fyrir börn, ungmenni og forsjáraðila þeirra, í kjölfar jarðskjálftanna á Suðurlandi í vor. Grein um verkefnið birtist í Morgunblaðinu 30. október 2008.

3. nóv. 2008 : Unnið úr jarðskjálftareynslu

Á þriðjudag hóf Rauði krossinn fræðsluverkefni fyrir börn, ungmenni og forsjáraðila þeirra, í kjölfar jarðskjálftanna á Suðurlandi í vor. Grein um verkefnið birtist í Morgunblaðinu 30. október 2008.