30. jan. 2009 : Grófleg misnotkun á nafni Rauða krossins

Rauði kross Íslands gagnrýnir harðlega vinnubrögð blaðamanna Morgunblaðsins varðandi grein sem birt er á blaðsíðu 16 í dag þar sem fullyrt er að Rauði krossinn hylji slóð Landsbankans í Panama. Þar er alvarlega vegið að starfsheiðri Rauða kross Íslands sem á engan hátt tengist málinu. Ekki var haft samband við Rauða krossinn við vinnslu greinarinnar.

Rauði kross Íslands hefur engin tengsl við Landsbankann varðandi sjálfseignarsjóðinn Aurora sem skráður er í eigu Zimham Corp. í Panama samkvæmt grein Morgunblaðsins. Rauði kross Íslands vísar algerlega á bug dylgjum um að Rauði krossinn hjálpi fjárfestum við að hylja slóð gegn þóknun.

15. jan. 2009 : Grindavíkurdeild í kröftugu útbreiðslustarfi

Grindavíkurdeild Rauða krossins opnaði nýverið vefsíðu. Á síðunni verður hægt að fylgjast með starfi deildarinnar og kynna sér þau fjölbreyttu verkefni sem hún sinnir.

15. jan. 2009 : Frábær fyrirlestur hjá Guðjóni Bergmann.

Grindavíkurdeild RKÍ, í samstarfi við Grindavíkurkirkju,  bauð Grindvíkingum að sækja fyrirlestur með Guðjóni Bergmann laugardaginn 24. Janúar sl. Um 20 manns sóttu fyrirlesturinn og voru allir sammála um að þar hafi fengist góð verkfæri til að takast á við erfiðleika og streitu með jákvæðu hugarfari.

Guðjón lagði áherslu á að hver og einn gerði sér grein fyrir að hann gæti aðeins stjórnað sér og sínum viðbrögðum. Breytingar væru óumflýjanlegar hvort sem okkur líkaði betur eða ver en við gætum valið að bregðast við þeim með jákvæðu hugarfari og að vera sá sem finnur lausnir í stað þess að kenna öðrum um og sitja fastur í gryfju fórnarlambsins. Guðjón kom líka inn á markmiðasetningu og skipulagningu tímans og gaf okkur góð ráð og verkfæri til að vinna slíka vinnu skilvirkt.

Ýmislegt fleira var rætt og Guðjón náði hópnum vel með sér. Frábær morgunstund í notalegri umgjörð kirkjunnar og þökkum við séra Elínborgu og Birnu fyrir að taka þátt í þessu með okkur. 

 

14. jan. 2009 : Hjálpfús á leikskóla

Leikskólar Grindavík, eins og allir leikskólar í landinu, fengu á dögunum DVD disk með Rauðakrossstráknum Hjálpfúsa gefins frá Grindavíkurdeild RKÍ.

Rauði kross Íslands og Ríkissjónvarpið gerðu samning um að vinna efni upp úr fræðsluefninu „Hjálpfús heimsækir leikskólann.”  Gerðir voru 16 þættir sem sýndir hafa verið í Stundinni okkar. Þessir þættir hafa nú verið teknir saman á einn DVD disk sem Rauða krossinn hefur gefið í alla leikskóla landsins.

Með Hjálpfúsa fá börn á leikskólaaldri sína fyrstu kennslu í skyndihjálp og það eru dæmi þess að sú fræðsla hafi komið að góðum notum.
 

14. jan. 2009 : Fréttabréfið

Fyrsta fréttabréf Grindavíkurdeildar RKÍ kom út í byrjun desember sl. og var dreift í öll hús í Grindavík.

Við vonum að bæjarbúar hafi haft ánægju af lestri blaðsins og orðið fróðari um starfsemi deildarinnar. Stefnt er að því að gefa út fréttabréf einu sinni á ári þar sem greint er frá því helsta sem deildin hefur verið að gera á tímabilinu.

Við viljum þakka alveg sérstaklega þeim sem þýddu fyrir okkur, í sjálfboðavinnu, textann um opnun síðna á fimm tungumálum á heimasíðu Rauða kross Íslands en það voru þau Sylwia Ostrowska sem þýddi yfir á pólsku og Waraphorn Thatphong og Manop Saedkhong sem þýddu yfir á tælensku. Í þakklætisskyni færði deildin þeim Gullmolakassa frá Nóa Síríus.

13. jan. 2009 : Jólastund

Þann 10. desember sl. kom handavinnuhópurinn saman í síðasta sinn á árinu 2008 og áttu saman góða stund þar sem söngur og girnilegar heimatilbúnar kræsingar voru í fyrirrúmi. Eftir að skylduverkunum var lokið var sest að borðum. Litla söngdívan Mýsla hitaði upp fyrir Friðarliljurnar með söng og dansi meðan þær gæddum sér á kræsingum og súkkulaði. En hún kunni bara eitt lag svo það var ekki annað að gera en að skella sér í sönginn og hljómar jólalaganna ómuðu um allt Rauðakrosshúsið.