29. sep. 2009 : Svæðisfundi deilda á Suðurlandi og Suðurnesjum lokið

Svæðisfundur Rauðakross deilda á Suðurlandi og Suðurnesjum var haldinn síðasta laugardag. Fundurinn hófst með námskeiðinu „að starfa í deild“, undir handleiðslu Ómars H. Kristmundssonar, fyrrverandi formanns Rauða kross Íslands. Námskeiðið var vel heppnað, hnitmiðað og skýrt og voru þátttakendur afar ánægðir með það.

Svæðisfundurinn var síðan með hefðbundnu sniði. Formaður svæðisráðs, Árni Þorgilsson, flutti skýrslu síðasta árs og skýrði þau verkefni sem unnið var að, en síðan var horft til næsta starfsárs og þeirra verkefna sem rúmast munu innan fjárhags- og framkvæmdaáætlunar.

Meðal nýjunga á svæðisvísu er fræðsluverkefni sem unnið er með föngum á Litla Hrauni. Verkefnið, sem hófst í byrjun sumars, er í umsjá Hveragerðisdeildar sem sér meðal annars um að útvega sjálfboðaliða til þátttöku. Verkefnið fór vel af stað og er mikill áhugi á að efla það, bæði meðal fanga og starfsfólks á Litla Hrauni og einnig Rauðakross deildanna.

10. sep. 2009 : Hælisleitendur í heimsókn

Hafnarfjarðardeild RKÍ stóð fyrir skoðunarferð fyrir hælisleitendur sem dvalið hafa í Reykjanesbæ þann 30. Ágúst sl.. Farið var um Reykjanesið og í Blá Lónið, þaðan komið til Grindavíkur þar sem boðið var upp á súpu hjá Grindavíkurdeild RKÍ í hádeginu og Salfisksetrið bauð upp á fría skoðunarferð um safnið. Gestirnir voru virkilega ánægðir með móttökurnar hér og héldu sælir og ánægðir áfram för sinni.

10. sep. 2009 : Blóðbíllinn í ágúst

Blóðbíll Blóðbankans kom til Grindavíkur miðvikudaginn 26. ágúst sl. Ágæt þátttaka var í blóðgjöfina og safnaðist vel. Okkur langar að biðja þá sem fá send sms eða tölvupóst um komu blóðbílsins að láta skilaboðin ganga áfram og að minna hvort annað á að fara og gefa blóð daginn sem bíllinn kemur.

Blóðgjöfum þökkum við kærlega blóðgjöfina og það að gefa sér tíma til að leggja þessari  söfnun lið. Með því hafið þið lagt ykkar að mörkum við að bjarga mannslífum - sannar hetjur.