Suðurnesjadeild fær styrk frá Styrktarsjóði Keflavíkurflugvallar

22. des. 2009

Suðurnesjadeild Rauða kross Íslands var úthlutað 600 þúsund krónum í styrk til góðgerarmála úr styrktarsjóði Keflavíkurflugvallar. Deildin var meðal tíu aðila sem fengu úthlutað samtals þremur milljónum króna. 

Í umsögn styrktarsjóðsins segir að Suðurnesjadeild Rauða krossins hafi úthlutað styrkjum til fátækra á Suðurnesjum fyrir hver jól í formi matarúttektar í verslunum þannig að fólk geti haldið jól.

Þörfin aldrei meiri
Suðurnesjadeildin hefur úthlutað styrkjum til fátækra á Suðurnesjum fyrir hver jól í formi matarúttektar í verslunum gegn úttektarkorti til að gera fólki kleift að halda jól. Á árinu 2007 voru umsóknir um jólastyrk 49 en jólin 2008 á upphafsmánuðum hrunsins hafði umsóknum fjölgað í 104 og vörðuðu 273 einstaklinga. Alls ráðstafaði sjóður deildarinnar 1,6 milljón króna í verkefnið. Styrkurinn frá Styrktarsjóði Keflavíkurflugvallar kemur því í góðar þarfir.

Keflavíkurflugvöllur ohf og Fríhöfnin ehf hafa styrkt margvísleg samfélagsverkefni á liðnum árum. Til að skerpa frekar á þessum málaflokki stofnaði félagið styrktarsjóð fyrr á þessu ári með áherslu á forvarnarverkefni fyrir ungmenni, líknarmál, góðgerðarmál og umhverfismál. Við val á styrkþegum er horft til eðils viðkomandi verkefnis, hversu margir muni njóta góðs af, fjölda styrkja í hverjum málaflokki og byggðarlagi auk þess sem áhersla er lögð á nýungar í verkefnavali.