Níu milljónir safnast á fyrsta sólarhring vegna Haítí

14. jan. 2010

Íslenska þjóðin hefur brugðist fádæma vel við söfnun Rauða krossins vegna hamfaranna á Haítí. Hátt í níu milljónir króna hafa safnast síðasta sólarhring í gegnum söfnunarsíma Rauða krossins 904 1500 og með beinum framlögum á bankareikning 0342, hb. 26, reikn. 12, kt. 530269-2649.

Hjálpargögn eru þegar byrjuð að berast til Port-au-Prince frá birgðastöð Alþjóða Rauða krossins í Panama og eins var birgðaflugvél send frá Genf nú síðdegis með 40 tonn af lyfjum og tækjabúnaði sem duga til að veita um 10.000 manns læknisaðstoð næstu þrjá mánuði. Í gær dreifði Alþjóða Rauði krossinn lyfjum og öðrum vörum til sjúkrahúsa sem hafa getað haldið út starfsemi í höfuðborginni Port-au-Prince sem duga til að veita um 1.200 manns aðstoð.

Þeir sem ekki hafa náð sambandi við ástvini á Haítí geta skráð nöfn sín og þeirra hjá Rauða krossinum, á http://www.icrc.org/familylinks. Starfsmenn Alþjóða Rauða krossins á Haítí eru farnir að taka niður nöfn fólks á staðnum sem hefur ekki getið haft samband við ástvini erlendis.
 
Eins og gefur að skilja ríkir ringulreið í Port-au-Prince núna og afleiðingar jarðskjálftans – þar á meðal rafmagnsleysi – trufla öll fjarskipti. Þó eru farsímar farnir að virka aftur.
 
Leitarþjónusta Rauða krossins hefur verið starfrækt í 140 ár, fyrst vegna styrjaldarátaka en nú á tímum í auknum mæli á tímum náttúruhamfara.