Fjölmennur aðalfundur í Vestmannaeyjum

10. feb. 2010

Rauða kross deild Vestmannaeyja hélt fjölmennan aðalfund í síðustu viku. Í skýrslu formanns kom fram hve starfið elftist á liðnu ári. Áhersla var lögð á kynningar  og auglýsingar út á við. Þetta skilaði sér í miklu sjálfboðastarfi með fjölmörgum verkefnum bæði gömlum og nýjum.

Meðal þeirra verkefna sem deildin vinnur að er „föt sem framlag“ þar sem öflugur sjálfboðaliðahópur útbýr litla fatapakka fyrir ung börn á aldrinum 0-1 árs. Sjálfboðaliðar koma saman í húsnæði deildarinnar og prjóna og sauma fatnað og aðrar nauðsynjar fyrir börnin. Þessi varningur er síðan sendur til staða þar sem neyð ríkir og þörf er brýn. Í desember sl. sendi deildin 200 fatapakka ásamt öðrum varningi til Hvíta Rússlands. Nú er búið að útbúa um 120 fatapakka sem væntanlega fara til vinadeildarinnar í Gambíu.

Á starfsárinu var lögð áhersla á fræðslu af ýmsu tagi. Námskeið í sálrænum stuðningi, málþing fyrir aðstandendur og áhugafólk um geðheilbrigðismál og síðast en ekki síst námskeiðið „Börn og umhverfi“ sem ætlað var fyrir börn í 12 ára bekk grunnskólans. Metþátttaka var á námskeiðið og vakti nokkra athygli hve hátt hlutfall drengja sótti námskeiðið að þessu sinni.

Þórir Guðmundsson sviðsstjóri alþjóðasviðs sagði frá jarðskjáltunum á Haítí.

Sérstakur gestur fundarins var Þórir Guðmundsson, sviðsstjóri alþjóðasviðs Rauða kross Íslands. Sagði hann í máli og myndum frá alþjóðastarfinu og hvaða verkefnum félagið væri að vinna að og styrkja á erlendri grundu. Einnig sagði hann frá ástandinu á Haíti og aðkomu Rauða krossins að verkefnum þar. Erindi Þóris var afar fróðlegt og áhugavert.