Athygli umheimsins á gosi

Kjartan Kjartansson blaðamann á Morgunblaðinu

18. apr. 2010

Mikið um fyrirspurnir frá erlendum miðlum.  Fjölmiðlamiðstöð sett upp á Hvolsvelli.  Finnst kaldhæðnislegt að Keflavík sé eini opni flugvöllurinn. Greinin birtist í Morgunblaðinu 17.04.2010.

„Það eru bara allar hendur á dekki. Við erum að hjálpa til við að svara öllum þeim fyrirspurnum sem berast hingað,” segir Urður Gunnarsdóttir, fjölmiðlafulltrúi utanríkisráðuneytisins, en hún var stödd í höfuðstöðvum Almannavarna þegar blaðamaður náði í hana ásamt fleiri fjölmiðlafulltrúum. Mikið hefur verið hringt frá erlendum fréttamiðlum eftir upplýsingum um gosið í Eyjafjallajökli og segir Urður áhuga þeirra aðallega beinast að aðgengi að landinu og hamfarasvæðinu og að ná tali af jarðfræðingum til þess að útskýra áhrif gossins. Þá hafi þeir mikinn áhuga á áhrifunum sem gosið hefur á Íslandi. „Þeir vilja vita umfangið hérna, hversu margir hafa þurft að yfirgefa heimili sín og slíkt. Erlendir miðlar hafa farið nokkuð geyst í umfjöllun sinni en við reynum að útskýra ástandið fyrir þeim eftir bestu getu,” segir Urður.

Undrast afslöppuð viðbrögð
Sólveig Ólafsdóttir hjá Rauða krossi Íslands segir reyting af erlendum fjölmiðlamönnum hafa verið á Hvolsvelli í gær og von sé á fleiri í dag en hún vann að því að koma upp fjölmiðamiðstöð í húsi Slysavarnafélagsins í bænum. „Við aðstoðuðum spænska sjónvarpsmenn, menn frá ítölsku fréttastofunni ANSA og Daily Mail í Bretlandi.” Menn vilji vita hvaða leiðir séu opnar og hvert sé hægt að komast, hvernig svæðið sé rýmt og hve langan tíma það taki. Flestir þeirra hafi viljað komast handan yfir Markarfljót en verið ráðið frá því.

„Það vakti mikla furðu að viðbúnaðurinn hér út af öskufalli væri minni en úti í Evrópu og þeim finnst við mjög afslöppuð í þessu. Þeim finnst líka kaldhæðnislegt að eini flugvöllurinn sem sé opinn sé flugvöllurinn í Keflavík,” segir Sólveig.