Sálrænn stuðningur og hátíðarmálsverður sumardaginn fyrsta

21. apr. 2010

Sjálfboðaliðar Rangárvallasýsludeildar Rauða krossins munu sjá um hátíðarmálsverð í tilefni sumardagsins fyrsta í félagsheimilinu Heimalandi. Opið verður frá klukkan 11:00-17:00 og leggja Sláturfélag Suðurlands, Emmessís og Ölgerðin til veisluföngin.

Fjöldahjálparstöð hefur verið á Heimalandi þegar íbúum hefur verið gert að rýma svæðið vegna eldgossins. Síðan á laugardag hafa sjálfboðaliðar Rauða krossins séð um mat á Heimalandi svo að íbúar undir Eyjafjöllum geti komið saman, borðað og ráðið ráðum sínum.

Fulltrúar Rauða krossins hafa verið með erindi um sálræn eftirköst áfalla á sjö íbúafundum síðastliðna þrjá daga auk þess sem sálfræðingar Rauða krossins hafa verið með viðveru í Heimalandi og Vík í samstarfi við heilbrigðisstofnanir á Suðurlandi.

Rauði krossinn minnir einnig á Hjálparsímann 1717 sem er opinn allan sólarhringinn. Heilsugæsla Rangárþings hefur opnað sérstakan þjónustusíma vegna afleiðinga eldgossins, s. 896 5080. Síminn er opinn frá kl 8-16, en svarað er í hann úr Hjálparsíma Rauða krossins 1717 eftir það.

Sálrænn stuðningur á vegum áfallateymis Rauða krossins og heilsugæslunnar verður í boði í Vík í Mýrdal og Heimalandi á föstudag frá klukkan 12-14.