Rauði krossinn opnaði fjöldahjálparstöðvar vegna hlaups í Múlakvísl

9. júl. 2011

Fjöldahjálparstöðvar Rauða krossins í Vík og Kirkjubæjarklaustri voru opnaðar snemma í morgun þegar hlaup hófst í Múlakvísl og rýma þurfti bæi í Álftaveri og Meðallandi.

Sjálfboðaliðar deildanna á svæðinu tóku á móti á þriðja hundrað manns, mest þó á Kirkjubæjarklaustri þar sem ættarmótsgestir í Álftaveri þurftu að taka sig upp en einnig komu 40 íbúar á rýmingarsvæðinu í fjöldahjálparstöðina. Franskir ferðamenn sem staddir voru í Þakgili voru fluttir með þyrlu til Víkur og dvöldu í fjöldahjálparstöðinni þar til þeir fengu aðstoð við að sækja bílana sína inn í Þakgil. Auk þess kom fjöldi ferðamanna við hjá Rauða krossinum en héldu flestir áfram ferð sinni um Fjallabak eða hringleiðina.

Rýmingu var aflétt klukkan þrjú en fjöldahjálparstöðvarnar eru opnar meðan á þarf að halda.

Fólki er bent á að hringja í Hjálparsíma Rauða krossins 1717 til að sækja sér upplýsingar og sálrænan stuðning.

Myndir frá Fjöldahjálparstöðinni í Kirkjubæjarskóla er hægt að finna hér