Fatagámurinn í Vík færir sig um set

28. des. 2010

Fatasöfnunargámur Víkurdeildar Rauða krossins fékk nýlega nýtt heimili. Hann stendur nú við Sunnubraut 14 – í góðu skjóli hjá Jeppum og öllu ehf. Aðgengi að nýja staðnum er betra og auðveldara en að þeim gamla og vonandi verða Mýrdælingar ánægðir með þessa breytingu. Söfnunargámur veður þó fyrst um sinn líka á gamla staðnum, við slökkvistöðina, á meðan fólk er að átta sig á breytingunni.

Með því að gefa fatnað leggur fólk Rauða krossinum lið og styrkir neyðaraðstoð bæði hér á landi og erlendis. Fatnaði er úthlutað til berskjaldaðra, hann er til sölu í Rauðakrossbúðunum og það sem ekki nýtist beint er selt í endurvinnslu. Árlega eru um þúsund tonn af fötum og klæði urðuð hérlendis. Þessu öllu væri hægt að koma í endurvinnslu og skapa um leið tekjur fyrir Hjálparsjóð Rauða krossins. Þannig fer styrkur til Rauða krossins og umhverfisvernd saman.

Öll vefnaðarvara kemur að notum, líka það sem er slitið eða  illa farið. Það sem ekki nýtist sem fatnaður fer í endurvinnslu og skilar mikilvægum tekjum til Rauða krossins í leiðinni. Skór, gluggatjöld, rúmföt og handklæði eru vel þegin, jafnt sem fatnaður af öllu tagi.

Fatagámurinn stendur á hellum sem mynda rauðan kross sem er einstaklega vel við eigandi!