Hælisleitendur á ferð um Suðurland

2. júl. 2010

Ellefu hælisleitendur, sem bíða þess að umsókn þeirra verði afgreidd, fóru í árlegt ferðalag um Suðurlandið síðustu helgi. Með þeim í för voru sjálfboðaliðar Hafnarfjarðardeildar sem vinna í verkefninu félagsstarf hælisleitenda.

Ferðinni var heitið til Víkur en á leiðinni var farið um Stokkseyri og Eyrarbakka og síðan var stoppað við Seljalandsfoss þar sem teknar voru myndir og létt nesti borðað.

Í Vík fékk hópurinn góðar móttökur hjá Sveini og Auði í Víkurdeild Rauða krossins. Þau upplýstu hópinn um eldgosið, hvaða áhrif það hefur haft í Vík og nágrenni og hvernig staðið var að hreinsunarstarfi meðan á gosinu stóð og nú þegar gosið hefur róast.

Gert var stutt stopp til þess að skoða svæði þar sem fiskeldi er stundað sem var mjög áhugavert. Því næst var farið inn í Þakgil sem var einkar fallegt og fólk kunni vel að meta.

Eftir að stoppað hafði verið í Félagsheimili Víkur til að fá sér kaffi og léttar veitingar var haldið á hestabýli Auðar þar sem hópurinn fékk að gefa tveimur heimalningum mjólk og skoða hestana. Í alla staði vel lukkaður dagur.