„Það er rosalega gott að komast úr rykinu.“ Krakkarnir í Vík fara í skemmtiferð

17. maí 2010

Börnin í grunnskólanum í Vík fengu hvíld frá gosöskunni á föstudaginn þegar Rauði krossinn bauð þeim í skemmtiferð til Reykjavíkur.

Dagskráin hófst um hádegisbil í Nauthólsvík þar sem þau undu sér vel við alls kyns leiki og fjör og gæddu sér á grilluðum pylsum. Síðar um daginn var farið í heimsókn í Latabæ og Húsdýragarðinn. Boðið var til kvöldverðar áður en lagt var af stað heim á leið.

Verkefnisstjórar í verkefni Rauða krossins Ungt fólk til athafna höfðu umsjón með móttökunni og dagskrárgerð. Viðtöl voru höfð við krakkana og þau spurð eftirfarandi spurninga; Hvernig er ástandið fyrir austan? Hvernig leggst dagurinn í þig? og þekkir þú eitthvað til Rauða krossins? Hægt er að sjá að krakkarnir nutu dagsins og skemmtu sér vel.

 Birgir Hans Birgisson er 15 ára frá bænum Norður-Götum í Vík í Mýrdal.
Hvernig er ástandið fyrir austan? Sumir eru stressaðir en aðrir ekki. Það er aska út um allt, meira að segja inni í húsunum. Við þurftum að flytja hestana okkar suður út af því. Ég og mamma mín erum nýkomin frá Spáni en við þurftum að fara þangað því  við erum bæði með astma og þoldum ekki öskuloftið. En það hefur ekki verið hægt að fara inn í húsið okkar í viku. Ég persónulega er ekki mjög stressaður útaf öskunni, ég fer vonandi bráðum í skóla fyrir sunnan, eftir sumarið.

Hvernig leggst dagurinn í þig? Dagurinn er að leggjast mjög vel í mig og þetta er búinn að vera fínn dagur og mjög gaman.
Þekkir þú eitthvað til Rauða krossins? Mamma mín er í Rauða krossinum og ég hef kynnst starfinu í gegnum hana.

Mikael Kjartansson er 10 ára gamall og á heima í Vík í Mýrdal.
Hvernig er ástandið fyrir austan? Það er allt í ösku, það verður að úða reglulega til að gera öskuna þyngri svo hún fjúki ekki út um allt. Askan er úti um allt, hún smýgur meira að segja inn í hús. Fólki líður ekkert illa og hundurinn okkar er í góðu lagi.

Hvernig leggst dagurinn í þig? Dagurinn er búinn að vera rosalega skemmtilegur, það er rosalega gott að komast úr rykinu og ótrúlega gaman að fara í sjóinn. Ég valdi að sleppa að fara í húsdýragarðinn og vera lengur í Nauthólsvík og það var ótrúlega gaman. Ég er líka spenntur fyrir heimsókn í Latabæ. Ég horfði oft á það og tók smá heljarstökk í sófanum á meðan.

Þekkir þú eitthvað til Rauða krossins? Já frænka Snorra vinar míns er í Rauða krossinum og svo auðvitað Gunnar enskukennari líka.

Bjarki Þór Ágústsson er 14 ára og býr í Vík.
Hvernig er ástandið fyrir austan? Það er svolítið slæmt ástandið á Vík, útaf öskunni sjálfri, það er t.d allt grátt í garðinum mínum. Það er ekki hægt að spila fótbolta því við það þyrlast upp svo miklir strókar. Maður verður alltaf að vera með grímu þegar maður er úti og það verður rosalega heitt inni í þessum grímum. Allir verða að vera úti í þykkum fötum því askan smýgur inn undir föt. Ég verð feginn að fara suður en ég verð að vinna hjá ömmu minni í sumar við að gróðursetja tré. En ég vona að þetta fari allt að fara að lagast.

Hvernig leggst dagurinn í þig? Bara mjög vel, þetta var mjög gaman ég var á fullu í sjónum, synti ekki en fór aðeins út í og það var mjög kalt. Latibær leggst ágætlega í mig en ég hef aldrei séð hann því ég hef aldrei verið með stöð tvö.

Þekkir þú eitthvað til Rauða krossins? Já ég þekki til þess, Rauði krossinn er alþjóðlegt hjálparstarf og pabbi minn starfar með Rauða krossinum.

Magdalena Katrín Sveinsdóttir 16 ára og Kristín Erla Benediktsdóttir 14 að verða 15 ára, þær búa báðar í Vík.
Hvernig er ástandið fyrir austan? Ástandið er misjafnlega gott og fólk er að bregðast við þessu misjafnlega sumir eru jákvæðir aðrir ekki. Ástandið hefur svo mismunandi áhrif á fólk, t.d er mismunandi hvort askan kemst inn í hús, það þarf  t.d. að kynda húsin vel og sumstaðar er það hægt en annars staðar ekki, fer eftir húsum. Sumir eru jákvæðir en aðrir ekki. Kristín Erla nefnir að þetta skaði sérstaklega ferðaþjónustu á svæðinu og að þetta hafi haft slæm áhrif á sleðaferðir sem pabbi hennar er með fyrir ferðamenn á Mýrdalsjökul. Að ferðirnar liggi allar niðri bæði þetta ár og líklega það næsta líka. Magdalena fer á næsta ári í ML. Í sumar ætla þær að vinna og vona að allt fari að lagast.

Hvernig leggst dagurinn í ykkur? Þær segja báðar að það hafi verið mjög gaman og gaman að fara í sjóinn og að dagskráin sé góð.

Aðspurðar segjast þær þekkja til Rauða krossins á þann hátt að þær hafi starfað fyrir hann, báðar hafa safnað fyrir Rauða krossinn og Magdalena tók fyrir nokkrum árum þátt í landsöfnun Rauða krossins og labbaði í hús og safnaði framlögum.

Fleiri myndir frá ferðinni