Við eigum samleið

Jóhönnu Róbertsdóttur svæðisfulltrúa Rauða krossins á Suðurandi og Suðurnesjum

3. sep. 2010

Þegar sumri hallar lifnar yfir öllu félagsstarfi. Þetta á einnig við um starf Rauða kross deilda sem nú eru að skipuleggja vetrarstarfið, fjölbreytt verkefni og námskeiðahald. 

Eitt af mikilvægum hlutverkum Rauða krossins er að breiða út þekkingu í skyndihjálp. Deildir bjóða lengri og styttri námskeið í almennri skyndihjálp, bæði fyrir fyrirtæki og almenning og einnig fræðslu í sálrænum stuðningi. Þekking í skyndihjálp getur bjargað mannslífum.

Verkefnið heimsóknavinir, hefur verið eitt af áhersluverkefnum Rauða krossins á síðustu árum. Heimsóknavinir eru sjálfboðaliðar sem heimsækja gestgjafa sína einu sinni í viku, yfirleitt í eina klukkustund í senn. Heimsóknir geta verið á einkaheimilum, öldrunarstofnun eða sambýli, allt eftir því hvar þörfin er og óskað er eftir. Hlutverk heimsóknavina er fyrst og fremst að veita félagsskap, og eru heimsóknarvinir á öllum aldri, bæði karlar og konur. Heimsóknavinir sækja  undirbúningsnámskeið áður en þeir taka til starfa, og eru þau haldin hjá deildum eftir þörfum.

Rauði krossinn veitir stuðning og neyðaraðstoð, bæði hér heima og erlendis. Dæmi um slíkt er aðkoma Rauða krossins í kjölfar náttúruhamfara á Suðurlandi á síðustu árum, bæði jarðskjálfta og eldgos. Fjölmargir sjálfboðaliðar unnu þar mikið og óeigingjarnt starf til hjálpar þeim sem þurftu á að halda. 

En þó neyðin sé stór hér heima, þá gleymum við ekki fólki í útlöndum þar sem neyðin er víða mikið vandamál. Margar deildir Rauða krossins hafa starfandi sjálfboðaliðahópa sem útbúa pakka með fatnaði og öðrum nauðsynjum fyrir ung börn í fátækari löndum heims. Pakkarnir hafa mest farið til Afríku, en síðasta haust kom neyðarbeiðni frá Hvíta Rússlandi, þar sem fátækt er útbreidd og vetrarhörkur miklar. Sjálfboðaliðar Rauða krossins brugðust skjótt við og sendir voru tvö þúsund ungbarnapakkar, auk annars varnings til neyðaraðstoðar.

Þetta eru aðeins örfá af þeim verkefnum sem Rauði krossinn kemur að með einum eða öðrum hætti. Ég hvet fólk til að kynna sér starfið, annað hvort með því að hafa samband við deildina á sínu svæði eða skoða heimasíðu Rauði krossins (www.raudikrossinn.is) þar sem finna má  ýmisskonar fróðleik og hagnýtar upplýsingar.

Rauði krossinn er ein stærsta og virtasta mannúðarhreyfing í heimi og öll vinnum við eftir sömu markmiðum og leiðum, hvort sem er á Suðurlandi eða Súdan, Klaustri eða Kenya. Þetta veitir Rauða krossinum sérstöðu, því það er sama hvar Rauði krossinn er að vinna, við erum öll í sama liði. Hreyfingin er borin uppi af sjálfboðaliðum og væri starfið fábrotið ef þeirra nyti ekki við. Tökum því þátt og hjálpumst að við að byggja betra samfélag fyrir okkur öll.

Jóhanna Róbertsdóttir
svæðisfulltrúi Rauða krossins
á Suðurlandi og Suðurnesjum