Samið um fjölsmiðju á Suðurnesjum

8. sep. 2010

Stofnfundur Fjölsmiðju á Suðurnesjum var haldinn í gær í húsnæði Suðurnesjadeildar Rauða krossins. Undanfarna mánuði hefur á vegum Vinnumálastofnunar, Rauða kross Íslands og sveitarfélaganna á Suðurnesjum verið unnið að undirbúningi þessa verkefnis. Nú þegar starfa fjölsmiðjur með svipuðum hætti í Kópavogi og á Akureyri.

Stjórn verður skipuð sex fulltrúum og sex varamönnum til tveggja ára í senn. Fyrsta verk stjórnar er að ráða forstöðumann og annað starfsfólk, finna húsnæði og gera rekstrar- og fjárhagsáætlun.  Ráðgert er að í upphafi verði fjórar til fimm deildir með 20-25 þátttakendum á aldrinum 16-24 ára.

Fjölsmiðja er í senn atvinnu-, menntunar- og félagslegt úrræði fyrir ungt fólk á krossgötum sem hefur flosnað upp úr námi eða vinnu. Ungmennunum er hjálpað við að finna sér stað í lífinu og byggja sig upp fyrir framtíðina. Í fjölsmiðju er lögð áhersla á verklega þekkingu svo að unga fólkið öðlist reynslu og verði hæfara til að finna sér starfsgrein eða að fara í frekara nám.