Vestmannaeyjadeild - starfið á árinu

9. mar. 2012

Síðasta starfsár deildarinnar var afar öflugt og viðburðarríkt auk þess sem deildin fagnaði 70 ára afmælisári.
 
Við höfum gert starfið sýnilegra með greinaskrifum í fréttamiðla og útbúið dreifibréf sem borið var inn á hvert heimili í bænum. Þar kynntum við starfsemina á afmælisárinu og þau verkefni sem eru í gangi og hvöttum um leið bæjarbúa til að leggja okkur lið í fatasöfnun Rauða krossins.

Fataverkefni
Fatasöfnunin er alltaf að aukast og hefur aldrei áður borist viðlíka magn til okkar og á árinu 2011. Tekið er á móti fötum tvisvar í viku þ.e. á mánudögum og miðvikudögum frá kl. 16.00 til kl. 18.00 og einnig er staðsettur fatagámur á afgreiðslu Eimskips þar sem fólk getur komið með fatnað á dagvinutíma alla virka daga vikunnar.

Verkefnið föt sem framlag er aðaldriffjöður okkar hér í Vestmannaeyjadeild. Yfir 30 konur vinna við þetta verkefni af miklum dugnaði og elju og þegar síðasta sending fór í síðasta mánuði hafa þær náð að senda alls 1430 ungbarnapakka frá því að verkefnið hófst í mars 2008.

Nýtt verkefni í „föt sem framlag”  hófst hjá deildinni í október 2011undir heitinu „Hlýja frá Íslandi” og er í samstarfi við efstu bekkjardeildir Grunnskólans. Það felst í því að hver nemandi útbýr fatapakka á jafnaldra sinn. Verkefnið er að safna notuðum hreinum og heilum fötum á börn 2ja til 12 ára og senda til fátækra barna í Hvíta Rússlandi.

Þetta verkefni fór vel af stað og náðu skólarnir að skila inn mörgum pökkum í sendinguna sem send var í janúar. Einnig komu í heimsókn í Arnardrang 45 krakkar úr fyrstu bekkjardeildum grunnskólans og færðu okkur tilbúna fatapakka til Hvíta Rússlands.

Okkar konur fylgdu þessu verkefni, héldu utan um það að öllu leyti og kyn- og aldursmerku fatapakkana og auðvitað náðu þær einnig að útbúa ófáa fatapakka sem þær  flokkuðu úr almennu fatasöfnuninni.

Námskeið
Grunnnámskeið var haldið í Framhaldsskólanum fyrir nemendur í lífsleikni og var  Jóhanna Róbersdóttir  leiðbeinandi.

Skyndihjálparnámskeið var einnig haldið í Framhaldskólanum og þar var Björgvin Eyjólfsson leiðbeinandi.

Fjöldahjálparnámskeið fyrir sjálfboðaliða Vestmannaeyjadeildar var haldið í Arnardrangi og var það tveggja kvölda námskeið.

Skyndihjálparnámskeið var haldið fyrir starfsfólk sambýlisins og Búhamars og  leiðbeinendur þar voru þau Lóa Skarphéðinsdóttir og Björgvin Eyjólfsson.

Námskeiðið „Börn og umhverfi” sem er ætlað fyrir börn í 12 ára bekk grunnskólans var haldið í apríl og mættu 18 börn. Leiðbeinendur voru Lóa Skarphéðinsdóttir og Ragna Kristín Jónsdóttir.

Sjúkraflutningar
Á árinu varð sú breyting á að sjúkraflutningar og sjúkrabifreið var flutt frá lögregluembættinu sem sinnt hafði þessu verkefni í fjöldamörg ár yfir til Heilbrigðisstofnunar Vestmannaeyja. Höfðum við Rauða kross fólk í Vestmannaeyjum talsverðar áhyggjur af þessari breytingu, en reyndin  hefur verið sú að þessar áhyggjur voru ástæðulausar og hefur þetta fyrirkomulag reynst mjög vel og allir aðilar sem að málinu komu verulega sáttir. Vill stjórnin færa Lögregluembættinu í Vestmannaeyjum bestu þakkir fyrir vel unnin störf á undanförnum árum og ánægjulegt samstarf ásamt góðri umhirðu og geymsluaðstöðu fyrir  sjúkrabifreið. Deildin endurnýjaði allan búnað í sjúkrabílinn snemma á árinu að beiðni Heilbrigðisstofnunar og sjúkraflutningamanna.

Rauðakrossvikan
Rauðkrossvikan  var kynnt í bæjarblöðunum og var opið hús í Arnardrangi einn laugardagseftirmiðdag þar sem starfsemi Rauða krossins var kynnt og boðið upp á veitingar. Mættu margir gestir sem fengu að skoða húseignina hátt og lágt.

Aðstoð
Fjölskyldu í vanda vegna mikilla veikinda og atvinnumissis var veitt aðstoð að upphæð kr. 150.000 í formi matarúttektar.

Jólaaðstoð í samvinnu við fimm önnur félagasamtök hefur verið nokkur undanfarin ár og reynst ákafalega vel og er í samvinnu við félagsmálayfirvöld, heilbrigðisgeirann og prestana. Heimild deildarinnar var að setja 500.000 krónur í sameiginlegan pott félagasamtakanna og voru allar umsóknir og ábendingar samþykktar. Miklu minni eftirspurn eftir aðstoð var til þess að deildin þurfti aðeins að nýta kr. 300.000 í aðstoðina í ár.

Ísfélag Vestmannaeyja afhenti í tilefni 110 ára afmæli síns Vestmannaeyjadeild  peningaupphæð alls kr. 500.000 og skyldu peningarnir notaðir til aðstoðar í Vestmannaeyjum fyrir jólin. Hefur þessi upphæð komið deildinni ákaflega vel á tímum þar sem tekjur Rauða krossins hafa dregist gríðarlega mikið saman – bæði kassatekjur og  ýmsir aðrir styrkir.

Húsnæði
Undanfarin ár hefur Vestmannaeyjadeild Rauða krossins lagt mikla vinnu í endurbætur á  þessu sögufræga húsi okkar Arnardrangi og lauk framkvæmdum vorið 2011. Í lok júlímánaðar hlaut Arnardrangur umhverfisverðlaun Vestmannaeyjabæjar 2011 fyrir best heppnuðu endurbætur á húseign í Vestmannaeyjum.

Við Rauða kross fólk erum ákafalega stolt af þessari viðurkenningu og finnst fullklárað hús góð og táknræn afmælisgjöf til deildarinnar á þessum merku tímamótum þegar deildin fagnar 70 ára afmæli.

Ólafur Lárusson læknir byggði þetta glæsilega hús árið 1928 og rak hér einkasjúkrahús fram til ársins 1941. Hann stofnaði Vestmannaeyjadeild Rauða kross Íslands í húsinu 23. mars 1941 og er deildin ennþá starfandi og það af miklum krafti.

Neyðaríbúðin hefur verið í notkun allan febrúarmánuð fyrir litla fjölskyldu vegna afskipta barnaverndar- og heilbrigðisnefndar Vestmannaeyjabæjar.

Góðir gestir
Í ágúst bauðst Vestmannaeyjadeild til að skipuleggja og taka á móti 20 hælisleitendum á vegum Hafnarfjarðardeildar í dagsferð til Vestmannaeyja. Hópurinn  kom hér svo einn sólríkan dag og var boðið upp á léttan hádegisverð og síðan farin rútuferð um Heimaey  og stutta bátsferð vestur fyrir Eyjar með leiðsögn. Dagurinn endaði með kvikmyndasýningu um eldgosið og uppbyggingu Vestmannaeyja eftir hamfarirnar og að lokum var garðveisla rétt fyrir heimferð með Herjólfi.

Svæðisfundur var haldinn í Arnardrangi í september og  var góð fundarsókn. Hörður Óskarsson tók við formannsembættinu á fundinum, enda búinn að bíða eftir embættinu nokkurn tíma. Eftir  fundinn var farin rútuferð um Heimaey og síðan bauð Vestmannaeyjadeild upp á kvöldverð og samkvæmi á miðhæð Arnardrangs.

Í október komu gestir til okkar frá Hvíta Rússlandi þau Viktor Kolbanov framkvæmdastjóri Rauða krossins í Hvíta Rússlandi og Vera Nikonchick yfirmaður alþjóðastarfs Rauða krossins í Hvíta Rússlandi og með þeim í fylgd voru þau Nína Helgadóttir og Þórir Guðmundsson. Þau komu snemma að morgni og voru hér fram á kvöld. Gestirnir fóru í heimsókn í Barnaskólann þar sem verið var að kynna nýja fataverkefnið „Hlýja frá Íslandi“ fyrir nemendum efstu bekkjardeildar. Töluðu gestirnir við nemendur og svöruðu fyrirspurnum nemenda. Farið var í rútuferð um Heimaey og endað með að skoða Pompei norðursins sem vakti mikla athygli þeirra. Að lokum kynntu sjálfboðaliðar Vestmannaeyjadeildar fataverkefnið Föt sem framlag.

Í desember var árlegur  súpufundur sjálfboðaliða deildarinnar. Gestur fundarins var Guðný Bjarnadóttir djákni og flutti hún sjálfboðaliðum fallega hugvekju.

Heimsóknaþjónusta
Heimsóknaþjónustan hefur starfað á sömu nótum og undanfarin ár og  er svipuð eftirspurn fyrir heimsóknavini. Tveir starfsmenn úr heimaþjónustu Heilsugæslunnar veita forstöðu og skipuleggja heimsóknavinastarf deildarinnar. Heimsóknavinir eru alls 10 og tveir ökuvinir. Heimsóknar- og ökuvinir veita félagsskap með heimsóknum sínum og reyna með því að draga úr félagslegri einangrun fólks.

Fundir
Alls voru haldnir 10 stjórnarfundir á árinu og tveir vinnu- og undirbúningsfundir.

Ég vil að endingu þakka stjórninni sérlega ánægjulegt samstarf á liðnu starfsári og sérstaklega þeim Lilju Óskarsdóttur og Guðrúnu Snæbjörnsdóttur, en þær hafa óskað eftir að ganga úr stjórn deildarinnar.

Síðan vil ég færa mínar bestu þakkir til allra sjálfboðaliðanna okkar frá stjórninni og Rauða krossinum á Íslandi fyrir ykkar miklu vinnu og fórnfúsa starf sem þið hafið lagt félaginu til á starfsárinu.

Ég vona að næsta starfsár verði jafn gefandi og það sem nú er að klárast.

Sigmar Georgsson
formaður Vestmannaeyjadeildar

Flutt á aðalfundi deildarinnar 6. mars 2012.