Hlýja frá Íslandi - Vestmannaeyjadeild Rauða krossins hleypir af stað stóru og áhugaverðu verkefni á meðal skólabarna og heimila

22. okt. 2011

Sjálfboðaliðar Rauða kross Íslands um land allt prjóna, sauma, hekla og safna notuðum fatnaði til að senda í kuldann og neyðina í Hvíta Rússlandi. Fatnaðinum er dreift til fjölskyldna í Hvíta Rússlandi sem eiga um sárt að binda. Í flestum tilvikum er um að ræða barnmargar fjölskyldur sem þurfa að hafa mikið fyrir lífinu og geta ekki keypt fatnað á börnin sökum fátæktar. Einnig njóta barnaheimili og munaðarlaus börn góðs af fatnaðinum frá Íslandi.

Á síðasta ári var sendur fullur gámur frá Rauða krossinum á Íslandi með ungbarnafatnaði og ýmsum öðrum nauðsynjavörum til neyðaraðstoðar. Sjálfboðaliðar í Vestmannaeyjadeild Rauða krossins hafa verið allra öflugastir í að útbúa ungbarnafatapakka handa fátækum börnum í Hvíta Rússlandi og áttu stóran hluta í síðustu gámasendingu. Annar gámur fór til Hvíta Rússlands í október og aftur fer sending á næstu vikum.

 Öllum fatasendingum  er fylgt eftir og kemst hann til skila á réttan stað. Þórir Guðmundsson sviðstjóri alþjóðasviðs Rauða krossins fór með sendingunum til Hvíta Rússlands og fylgdist með úthlutun sjálfboðaliða Rauða krossins í Hvíta Rússlandi. Í framhaldi af þessari velheppnuðu fatasendingu var ákveðið að halda áfram  þessari neyðaraðstoð í samstarfi við Rauða krossinn í Hvíta Rússlandi og koma á nýju verkefni sem fellst í því að útbúa fatapakka fyrir eldri börn.  

Verkefnið er að safna notuðum hreinum og heilum fötum á börn 2ja til 12 ára og senda til fátækra barna í Hvíta Rússlandi. Skólabörnin  útbúa fatapakka heima hjá sér eða í skólanum í samráði við kennara sinn sem síðan verður hlý og notleg gjöf til jafnaldra þeirra  í Hvíta Rússlandi. Rauði krossinn hvetur foreldra að gefa börnum sínum leyfi til  að gefa  föt sem eru orðin of lítil á þau og aðrir á heimilinu þurfa ekki lengur á þeim að halda.   Skemmtilegast er að öll fjölskyldan komi að verkefninu !

Fatapakkarnir verða allir með sama innihaldi samkvæmt óskum frá Rauða krossinum í Hvíta Rússlandi;

Innihald hvers pakka er:
•    Peysa ( úr ull, flís, prjónuðu eða öðru sambærilegu )
•    Buxur ( gallabuxur, íþróttabuxur eða sambærilegar )
•    Stuttermabolur ( bómullarbolur eða annað sambærilegt )
•    Sokkar ( ullarsokkar, þykkir bómullarsokkar eða annað sambærilegt )
•    Vettlingar ( flís, prjónaðir eða aðrir hlýjir )
•    Húfa ( flís, prjónuð eða annað sambærilegt )


Fötin þurfa að sjálfsögðu að vera hrein og heil, því við viljum að krakkarnir í Hvíta Rússlandi verði ánægð og stolt þegar þau opna hlýju pakkana og sjá hvað krakkarnir á Íslandi hugsa vel til þeirra og eru þeim góð.

Útbúa veður pakkann í glæran poka og setja merki utan á pokann og merkja hvort fötin eru á strák eða stelpu og á hvaða aldurshóp barna fötin eru.
Fötin eru flokkuð á fjóra aldurshópa þ.e.
2 til 4 ára  --  5 til 7 ára  --- 8 til 10 ára  og  11 til 12 ára

Hvíta Rússland er landlukt ríki í Austur Evrópu. Það á landamæri að Póllandi í vestri, Litháen í norðvestri, Lettlandi í noðri, Rússlandi í austri og Úkraníu í Suðri. Höfuðborg Hvíta Rússlands er Minsk. Landið er um það bil helmingi stærra en Ísland eða alls  um 207600  km2 og er þriðjungur landsins þakinn skógi.Íbúar eru alls um 10 milljónir og helstu atvinnugreinar landsins eru landbúnaður og iðnaður. Veturnir eru kaldir og getur frost og snjór verið í allt að 125 daga á ári.Víða er mikil fátækt í landinu,sérstaklega á landsbyggðinni þar sem um 25% íbúanna býr. Margir búa mjög afskekkt í þorpum langt frá þjónustusvæðum og eiga mjög erfitt með að sjá fjölskyldunni farborða

Vestmannaeyjadeild Rauða krossins hvetur sem flestar fjölskyldur til að taka þátt í þessu mikilvæga verkefni deildarinnar og sýna í verki samhug okkar allra.