Vestmannaeyjadeild bauð hælisleitendum í bátsferð um Eyjar

1. sep. 2011

Sjálfboðaliðar Rauða krossins fóru á dögunum í vel heppnaða ferð til Vestmannaeyja með hælisleitendum. Lagt var af stað úr Reykjanesbæ snemma morguns í blíðskaparveðri áleiðis í Landeyjarhöfn þar sem hópurinn tók Herjólf til Eyja.

Vestmannaeyjadeild Rauða krossins sýndi mikla gestrisni þegar tekið var á móti hópnum og sá til þess að menn fengju að njóta þess besta sem Vestmannaeyjar hafa uppá að bjóða. Að sjálfsögðu var ekið um Heimaey auk þess sem boðið var uppá bátsferð og eldfjallasýningu.

Hælisleitendur og sjálfboðaliðar skemmtu sér mjög vel og var mönnum tíðrætt um gestrisni Eyjamanna og stórbrotna náttúru Vestmannaeyja. Til marks um gestrisnina var öllum hópnum boðið í snarl í garði eins sjálfboðaliða deildarinnar og því fengu menn einstakt tækifæri til að kynnast heimamönnum.

Ferðin er gott dæmi um hvernig verkefni eins og stuðningur við hælisleitendur er unninn í samstarfi og samvinnu deilda innan Rauða krossins. Sjálfboðaliðar í félagsstarfi fyrir hælisleitendur þakka því Vestmannaeyjadeild kærlega fyrir frábærar móttökur og ánægjulegt samstarf.

Hafnarfjarðardeild leitar nú að nýjum sjálfboðaliðum til að taka þátt í verkefnum í þágu hælisleitenda. Um er að ræða þrjú verkefni: heimsóknir til hælisleitenda, félagsstarf fyrir hælisleitendur og félagslegur stuðningur við þá sem fá alþjóðlega vernd á Íslandi. Verkefnin eru ætluð fólki 23 ára og eldra og þarf viðkomandi að tala a.m.k. eitt erlent tungumál reiprennandi (að Norðurlandamálum undanskildum). Ef þú hefur áhuga á að taka þátt hafðu þá samband í síma 565-1222 eða sendu okkur póst á hafnarfjordur@redcross.is