Rauði krossinn á Selfossi aðstoðar gesti Hótel Selfoss
Húsnæði Rauða krossins á Selfossi var opnað í nótt fyrir gesti Hótel Selfoss sem þurftu að yfirgefa herbergi sín um klukkan tvö vegna elds sem kom upp í þvottahúsi hótelsins. Eldurinn reyndist ekki mikill og var slökktur fljótlega. Það þurfti hins vegar að reykræsta hótelið og var gestum ekki hleypt inn aftur fyrr en um fjögur leytið.
Á meðan nutu gestir aðhlynningar Rauða krossins en sumir þeirra höfðu yfirgefið hótelið á náttfötum einum fata. Sem betur fer var veður milt og engum varð meint af.
Þó fólk bæri sig yfirleitt vel var sumum illa brugðið og mætti fólk frá Rauða krossinum á hótelið klukkan sjö í morgun til að veita sálrænan stuðning fyrir þá sem þess óskuðu.
Flestir gestanna eru erlendir ferðamenn sem halda væntanlega ferð sinni áfram í dag.
- Eldra
- Nýrra