Veist þú hvar þín fjöldahjáparstöð er staðsett??

19. maí 2011

Neyðarvarnarnefnd Hveragerðis- og Árnesingadeilda Rauða krossins fór í kynnisferð í síðustu viku til að meta aðstæður í fjöldahjálparstöðvum sem tilheyra þeirra svæði, sem er öll Árnessýsla.

Farið var í fjöldahjálparstöðvarnar á Selfossi, Eyrarbakka og Stokkseyri, Þorlákshöfn og Hveragerði, en á síðasta ári var nefndin búin að skoða stöðvarnar á Laugarvatni, Flúðum og Reykholti. Allar þessar fjöldahjálparstöðvar eru staðsettar í skólabyggingum. Stjórnendur skólanna tóku vel á móti nefndinni og sýndu þeim byggingar og aðstöðu.

Hlutverk Rauða krossins á neyðartímum er að opna fjöldahjálparstöð fyrir þá sem þurfa að yfirgefa heimili sín. Þar fer fram skráning á fólki sem miðar að því að sameina fjölskyldur, fólk fær fæði, klæði, upplýsingar og nauðsynlega aðhlynningu. Til að geta opnað fjöldahjálparstöð þurfa sjálfboðaliðar að sækja fjöldahjálparnámskeið hjá Rauða krossinum. Til stendur að halda slíkt í haust og eru allir áhugasamir hvattir til að sækja slíkt námskeið.

Nefndarmenn voru sammála um að skoðunarferðir sem þessar séu mjög gagnlegar og mikilvægt að tengjast heimamönnum á hverjum stað með þessum hætti.

Staðsetning fjöldarhjálparstöðva í Árnessýslu eru í:
Menntaskólanum á Laugarvatni
Grunnskólanum á Flúðum
Grunnskólanum í Reykholti
Grunnskólanum á Selfossi (Vallarskóla)
Grunnskólanum á Eyrabakka og Stokkseyri
Grunnskólanum í Þorlákshöfn
Grunnskólanum í Hveragerði