Prjónað í Hveragerði

1. des. 2010

Prjónahópur Rauða krossins í Hveragerði hefur verið endurvakinn og á fyrsta hittingi mættu níu galvaskar konur og áttu góða og notalega kvöldstund saman yfir prjónaskap og spjalli.

Ákveðið er að hittast hálfsmánaðarlega, á miðvikudögum kl. 20.00. Einnig verða haldnir fyrirlestrar og eða kynningar á þessum kvöldum.

Á fyrstu kynningu var Örn Guðmundsson varaformaður deildarinnar með sýnikennslu á hvernig jólasería er búin til úr þæfðri ull. Það var 16 manna hópur sem fylgdist með Erni og fékk að taka þátt í þessari einföldu og fallegu handavinnu. Eftir prjón, sýnikennslu og fjörugt spjall bauð Hrafnhildur starfsmaður upp á kaffi og smákökur. 

Margar deildir Rauða krossins um allt land eru með prjónahópa og er markmiðið að spyrna gegn einangrun og einmannaleika og um leið að styrkja góð málefni. Rauði krossinn leggur til garn og prjóna, en konur vinna svo eitthvað fallegt og nytsamlegt úr því efni sem til er hverju sinni.  Og þeir sem ekki kunna að prjóna, geta heklað, saumað eða þá lært að prjóna því þarna eru samankomnar snillingar í prjónamennsku sem tilbúnar eru að leiðbeina öðrum. Vörurnar eru síðan seldar í búðinni eða settar í ungbarnapakka sem síðan er sendur út til landa þar sem fátækt og eymd ríkir. 

Næsti hittingur er miðvikudagskvöldið 1. desember kl 20.00 og mun Anna Kvist halda fyrirlesturinn „prjón fyrir prjón“ eða hannyrðir á tímum víkinga. Allir eru velkomnir og við hlökkum til að sjá ykkur.

Eyrún Sigurðardóttir formaður Hveragerðisdeildar