Fræðsla um rekstur fjöldahjálparstöðva á Suðurlandi

16. nóv. 2010

Neyðarvarnir eru eitt af mikilvægustu verkefnum hverrar Rauða kross deildar, enda bera deildir ábyrgð á fjöldahjálp á neyðartímum í sínu umdæmi. Allar deildir vinna neyðarvarnaáætlanir fyrir sitt starfssvæði og uppfæra þær reglulega. 

Rauði krossin hefur ákveðnu hlutverki að gegna í viðbrögðum við neyð í landinu. Fjöldahjálp og félagslegt hjálparstarf eru verkefni Rauða kross Íslands samkvæmt samningum við stjórnvöld og lögum um almannavarnir. Deildir opna fjöldahjálparstöðvar þegar á þarf að halda og starfrækja þær á meðan þörf er á. Þeir sem þangað leita fá margvíslegan stuðningur og aðstoð og þar er séð um skráningar og upplýsingagjöf eftir því sem við á.

Til að geta sinnt þessu hlutverki sínu þurfa deildir að hafa til þess vel þjálfað fólk og eru námskeið fyrir fjöldahjálparstjóra haldin eftir þörfum. Þar er meðal annars frætt um kerfi almannavarna, rekstur fjöldahjálparstöðva og sálrænan stuðning. Þetta eru ítarleg námskeið sem ætluð eru sérstaklega fyrir stjórnendur fjöldahjálparstöðva og þá sem halda utan um neyðarvarnamálefni deildanna.

Nokkur styttri námskeið hafa verið sett upp á Suðurlandi. Starfsfólk sveitarfélaga og heilsugæslu, sjálfboðaliðar Rauða krossins og íbúar sem eiga á hættu að lokast tímabundið meðan á náttúruhamförum stendur var sérstaklega hvatt til að mæta. Markmið með námskeiðinu var  að gefa áhugasömum færi á að kynnast fjöldahjálparstöðvum Rauða krossins og öðlast færni í að starfrækja þær í skamman tíma meðan á almannavarnaaðgerðum stendur.

Námskeiðin voru ágætlega sótt og þótti fólki gott að fá innsýn í það skipulag sem unnið er eftir. Að fræðslufyrirlestrum loknum sköpuðust góðar umræður um neyðarvarnir í héraði og skipst  var á reynslusögum.