Áramótakveðja frá Rauða krossinum í Hveragerði

Eyrúnu Sigurðardóttur formann Hveragerðisdeildar Rauða krossins

30. des. 2009

Nýtt ár er að ganga í garð. Við hjá Rauða krossinum viljum þakka öllum þeim sjálboðaliðum sem starfað hafa með okkur í Hveragerðisdeildinni á liðnum árum fyrir alla þá hjálp sem þeir hafa gefið út í samfélagið til þess að gera það betra. Án ykkar, kæru sjálboðaliðar væri deildin ekkert. Það skiptir öllu máli fyrir litlar deildir eins og okkar hér í Hveragerði að hafa gott fólk með okkur sem er tilbúið að gefa af sér til þess að láta þeim sem minna mega sín, líða betur og um leið finna þau og sjá að til er fólk sem stendur ekki á sama.

Eitt er það verkefni hjá okkur í deildinni sem heitir ,, Föt sem framlag,, það byrjaði mjög vel árið 2008 og útbjuggum við ca. 100 ungbarnapakka sem sendir voru til vinadeildar okkar í Gambíu. Þar voru þessir ungbarnapakkar afhentir nýbökuðum mæðrum, þeim til mikilar gleði, því þetta er fólk sem á ekkert og þegar ég segi ekkert þá meina ég EKKERT. Þessir ungbarnapakkar innihalda allt sem nýfætt barn þarf á að halda fyrstu mánuðina og í þeim eru: teppi, handklæði, bleiur, bleyjubuxur, samfella, buxur, peysa, sokkar, vettlingar og húfa. Nú í haust fengum við hjálparbeiðni frá Hvíta Rússlandi, þar sem óskað var eftir ungbarnapökkum. En í þeim pökkum þarf samsetningin að vera önnur, hlýrri fatnaður því það er mikil hitamunur á milli þessara landa eins og gefur að skilja. En því miður gat okkar deild í þetta skipti ekki úthlutað nema brot af því sem við sendum út síðast eða um 20 ungbarnapakka...... ástæðan fyrir því er að sjálfboðaliðum hefur fækkað vegna veikinda eða fólk snúið sér að einhverju öðru.  Það er mín ósk að geta eflt þetta verkefni aftur, því að ég veit að úti í samfélaginu er fólk sem vill láta gott af sér leiða. Einnig veit ég að bæði karlar og konur á öllum aldri eru ein heima, öryrkjar, atvinnulausir, eldri borgar og jafnvel fólk sem er ný flutt hingað í bæjarfélagið og ekki komið út á vinnumarkaðinn , sem ég ætla nú að biðla til. Verkefnið ,,föt sem framlag,, er eingöngu kostað af Rauða krossinum og skaffar hann allt efni og áhöld sem til þarf. Það er bara að mæta, hittast, spjalla, fá sér kaffi og sauma eða prjóna og hafa gaman. Kostar ekki krónu fyrir sjálfboðaliðann nema þá tímann sem hann leggur til í það skiptið.

Ég bið ykkur kæru lesendur að loka augunum eitt augnablik og reyna að setja ykkur í þeirra spor sem eiga ekkert og búa við kulda og kröpp kjör, þeirra sem voru ekki eins heppnir og við að fæðast hér á Íslandi, þar sem allir hafa húsaskjól, hita og rafmagn, heitt vatn, hlýjan fatnað og mat. Kannski hugsa sumir núna að hér ríki kreppa og atvinnuleysi, en þrátt fyrir að kreppuna þá getum við látið gott af okkur leiða í svona verkefni, því eins og ég hef áður nefnt þá þarf ekki að leggja til peninga, bara tíma. Við í deildinni munum halda ótrauð áfram að vinna að þessu mikilvæga verkefni í vetur og höfum við verið að hittast á miðvikudögum frá kl 13.00 til 16.00 á neðri hæð Rauða krossins.  Ég hvet alla þá sem vilja rétta okkur hjálparhönd að hafa samband við okkur og það verður tekið vel á móti þér. Látum gott af okkur leiða því um leið líður okkur betur. Sýnum hvert öðru mannúð, samkennd og virðingu, óháð litarhætti, kynþætti eða trú.